Bruni BB (1981-82)

Bruni BB

Hljómsveitarinnar Bruna BB verður sjálfsagt helst minnst fyrir að vera óvinsælasta hljómsveit íslenskrar tónlistarsögu en þessi umdeilda sveit vakti andúð nánast í hvert sinn sem hún lék opinberlega og hending var ef sveitin fékk að klára tónleika sína.

Fyrst skal hér nefnt nafn sveitarinnar sem meðlimir hennar hafa reyndar aldrei tjáð sig almennilega um en sagan segir að vísað sé þar til bruna sem varð í ráðherrabústaðnum á Þingvöllum sumarið 1970 þegar Bjarni Benediktsson (BB) þáverandi forsætisráðherra lést ásamt eiginkonu og barnabarni. Sveitin hafi einnig gengið undir nafninu BBB, jafnvel Bruni BBBB og VBV, hvert öðru ósmekklegra og ógeðslegra en verður ekki fjallað frekar um hér.

Sveitin var nátengd nýlistadeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands (MHÍ) og mun hluti eða jafnvel flestir þeirra félaga hafa verið í námi þar, MHÍ átti einmitt eftir að koma nokkuð við sögu sveitarinnar þegar mest gekk á. Bruni BB var oft nefnd gjörningasveit en það var að líkindum í fyrsta sinn sem hugtakið var notað yfir hljómsveit hérlendis.

Meðlimir sveitarinnar voru átta talsins þegar mestu lætin voru í kringum hana, það voru þeir Ómar Stefánsson trommuleikari, Ámundi Sigurðsson söngvari, Björn Roth bassaleikari, Sigurður Ingólfsson gítarleikari, Hörður Bragason hljómborðsleikari, Finnbogi Pétursson gítarleikari, Kristján E. Karlsson söngvari og Helgi Friðjónsson söngvari. Það er svolítið einkennilegt til þess að hugsa að áttmenningarnir hafi leikið á hljóðfæri því hvergi er nokkurn staðar minnst á hljóðfæraleik í umfjöllun fjölmiðla um sveitina. Þeir léku á hljóðfæri sín á óhefðbundinn hátt en segulbönd og annars konar hljóðgjafar voru einnig notaðir. Sveitin hafði aðsetur eða höfuðstöðvar sínar oftast nær að Bala í Mosfellssveit þar sem Roth-fjölskyldan bjó en þar varð einnig til annars konar tónlist sem rann frá Roth-feðgum.

Bruni BB á Hótel Borg vorið 1981

Fyrstu blaðaheimildir um Bruna BB er að finna frá því í maí 1981 þegar sveitin lék ásamt fleirum á tónleikum í Hafnarbíói. Þá gæti sveitin hafa verið starfandi í nokkurn tíma og t.d. mun hafa verið söngvari að nafni Björn Karlsson í henni, ekki liggur fyrir hvenær hann hætti en mannabreytingar gætu hafa verið nokkrar áður en mestu lætin í kringum hana urðu. Einhverju sinni um þetta leyti mun hljómsveitin hafa leikið á Hótel Borg þar sem þeir félagar köstuðu pillum út í áhorfendahópinn og múnuðu svo á hann með rós í óæðri endanum.

Það var síðan á tónleikunum Annað hljóð í strokkinn sem haldnir voru í júlímánuði í Laugardalshöllinni þar sem fjöldi hljómsveita kom fram, sem Bruni BB vakti fyrst almennilega athygli en ekki var það þó fyrir spilamennskuna. Þeir félagar höfðu ætlað sér að kveikja í einum meðlimi sveitarinnar (Helga Friðjónssyni) og hella málningu yfir annan en áður en til þess kom hafði þeim af aðstandendum tónleikanna verið meinað að flytja atriði sitt enda voru þeir félagar ofurölvi og áttu ekkert erindi á svið. Við það ræsti Björn Roth keðjusög (sem reyndar var án keðju en það vissi auðvitað enginn) og þá skarst lögreglan í leikinn, fimm lögregluþjónar reyndu að umkringja hann og afvopna þarna á sviði Laugardalshallarinnar. Nokkurt hlé þurfti að gera á tónleikunum en fjórum meðlimum sveitarinnar var stungið í steininn enda brugðust þeir allir illa við þegar lögreglan braust upp á sviðið og var málningu slett á veggi og rúður brotnar í látunum. Málið vakti eðli málsins mikla athygli og liðsmenn Bruna BB munu hafa verið ósáttir við að tekið væri fram fyrir hendurnar á þeim, þá þurftu þeir að aflýsa annarri uppákomu daginn eftir þar sem tæki þeirra (m.a. vélsögin) höfðu verið gerð upptæk.

Eftir nokkra pásu eða um þremur mánuðum síðar (um miðjan nóvember 1981) leigðu hljómsveitarmeðlimir sal Nýlistasafnsins við Vatnsstíg til að halda þar tónleika þar sem þeir gætu framið gjörning sinn í friði án afskipta tónleikahaldara. Tilefnið var einnig að tökumenn á vegum kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík voru þá að mynda tónleika og æfingar hljómsveita um þær mundir, og hugðust vera á staðnum.

Frá tónleikunum Annað hljóð í strokkinn

Um fimmtíu manns voru á tónleikunum í Nýlistasafninu sem urðu vægast sagt sögulegir. Gjörningur sveitarinnar gekk m.a. út á að afhausa kjúklinga með pappaskurðarhníf, sem síðan flögruðu um hauslausir meðal áhorfenda tónleikanna á meðan tónlist var leikin af teipi undir annarlegri lýsingu. Um tugur kjúklinga mun hafa lent í skurðarhnífnum en þegar einn meðlima sveitarinnar leiddi stálpaðan grís í gegnum áhorfendhópinn og upp á svið tók einhver sig til að kallaði á lögregluna sem kom þegar og stöðvaði sýninguna enda þótti ljóst að örlög gríssins yrðu þau sömu og fiðurfénaðsins. Grísinn fannst ekki þegar lögreglan mætti á svæðið en hann var þá geymdur inni á salerni hússins þar sem hann drakk vatn úr klósettinu og gæddi sér á Brauðbæjar-hamborgurum eftir því sem liðsmenn Bruna BB sögðu síðar í blaðaviðtali.

Í kjölfarið voru þeir liðsmenn sem voru í nýlistadeild MHÍ reknir úr skólanum en ekki liggur alveg ljóst fyrir hversu lengi, heimildir segja ýmist í tvo mánuði eða til frambúðar, og einnig er óljóst hverjir þeirra voru yfirhöfuð við nám í skólanum. Einhverjir meðlima sveitarinnar luku þó námi síðar við skólann.

Hljómsveitin var ákærð fyrir brot á lögum um dýraverndun og fengu þeir sektir löngu síðar þegar málið hafði velkst um í kerfinu um árabil, þeir máttu jafnframt ekki eiga gæludýr í tvö ár eftir dóminn. Í blaðaviðtali löngu síðar sagði Björn Roth að við vitnaleiðslur hefðu eigendur Reykjagarðs (þaðan sem þeir keyptu kjúklingana) verið yfir sig hneykslaðir á framferði hljómsveitarinnar en á sama tíma dræpu þeir sjálfir kjúklinga í miklu magni með ómannúðlegum hætti. Eigandi svínsins hefði á hinn bóginn verið himinlifandi þegar hann fékk grísinn sinn aftur nýþveginn og -greiddan.

Reyndar urðu enn meiri eftirmálar af tónleikunum í Nýlistasafninu því auglýsingaplakat það sem auglýsti viðburðinn var skreytt heldur óhugnalegri mynd af vansköpuðu barni en þá mynd hafði einn meðlima sveitarinnar, Sigurður Ingólfsson fundið í einhverju fagtímariti lækna en hann var þá nemi við læknadeild Háskóla Íslands. Sigurði var samstundis vikið frá námi vegna málsins.

Bruni BB við afhausun kjúklinga í Nýlistasafninu

Myndin var einnig notuð á kassettuhulstri sveitarinnar en Bruni BB gaf út snældu með upptökum frá tónleikunum í Nýlistasafninu. Titillinn á henni er „Laugardag 14 nóv kl 21: Bruni BB konsert í Nýlistasafninu“ sem er ekki alls kostar rétt því tónleikarnir fóru fram þann 17. nóvember. Það þarf varla að taka fram að kassettan er sjaldgæfur safngripur enda mun upplagið hafa verið fremur lítið. Heilmikið óútgefið efni liggur eftir sveitina en ólíklegt verður að teljast að það komi nokkru sinni fyrir almennings sjónir. Efni með sveitinni má aukinheldur heyra á plötunni með tónlistinni úr Rokk í Reykjavík (1982) sem og safnkassettunni [Hrátt] pönksafn (2016).

Sem von var vakti Bruni BB almenna reiði fyrir uppátæki sitt og þegar Rokk í Reykjavík var tekin til sýninga vorið 1982 gat almenningur séð atriðið með eigin augum. Margir voru á því að hljómsveitin ætti ekkert erindi í kvikmyndina eða á plötuna með tónlistinni, enda var varla um tónlistaratriði að ræða þótt flestir væru reyndar sammála um að atriðið væri magnþrungið, – lesendabréf dagblaðanna eftir sýningu myndarinnar í kvikmyndahúsum bera vitni um það. Enda fór það svo að þegar myndin var sýnd í Ríkissjónvarpinu haustið 1983, að þá var búið að klippa atriði Bruna BB úr myndinni, þá hafði kvikmyndun atburðarins einnig verið kærð en það þótti varða við dýraverndunarlög að dýradráp væri kvikmyndað til skemmtunar almenningi og til að hafa gróða af.

Bruni BB hafði því fremur hægt um sig í kjölfar atburðanna í Nýlistasafninu og líklega kom hún ekkert fram eftir það. Sveitin starfaði líklega fram til haustsins 1982 en þá flutti Ómar til Þýskalands í listnám, það sama haust áttu þeir félagar hljóðverk í alþjóðlegri myndlistasýningunni Tvíæringnum sem haldin var í París en ekki finnast frekari upplýsingar um það eða hvort meira fylgdi í kjölfarið.

Bruni BB var sem fyrr segir hópur sem flokkast kannski fremur undir mynd- eða gjörningalist fremur en tónlist, þeir vildu sjálfir skilgreina listformið sem „total art“ þar sem margar listgreinar sameinuðust en meðal þeirra væri tónlist. Það má segja að sams konar kynslóðaskipti hafi verið að gerast í myndlistinni og tónlistinni á þessum tíma hér á landi, pönkið og „nýja málverkið“ héldust því í hendur að þessu leyti.

Flestir meðlimir Bruna BB urðu myndlistamenn síðar meir þrátt fyrir brottreksturinn úr MHÍ og sumir þeirra meira að segja í fremstu röð, þeir Finnbogi Pétursson og Hörður Bragason, auk Björns Roth lengi vel hafa verið viðloðandi tónlist með einum og öðrum hætti. Segja mætti með einhverri réttu að sveitin hafi rutt brautina fyrir síðari tíma hávaðalistar- eða hljóðlistarsveitir á borð við Stilluppsteypu, Ghostigital og fleiri.

Efni á plötum