Bárubúð [tónlistartengdur staður] (1899-1945)

Bárubúð

Bárubúð (Báran) var lengi vel helsti samkomustaður Reykvíkinga og um leið tónleikasalur en húsið var eitt af örfáum slíkum sem hentaði til samkomuhalds í höfuðborginni.

Það var sjómannafélagið Báran (eitt af allra fyrstu verkalýðsfélögunum hérlendis, stofnað 1894) sem lét byggja húsið við Vonarstræti á árunum 1899-99 en það stóð við norðvestur horn Tjarnarinnar, þar sem Ráðhús Reykjavíkur stendur í dag. Húsið hlaut nafnið Bárubúð árið 1902 en var jafnoft kallað Báran, það varð fljótlega eftirsóttur samkomustaður fyrir hvers kyns fundi og skemmtisamkomur og tónleikar og dansleikir voru oftsinnis haldnir í sal hússins. Þannig héldu m.a. Karlakór K.F.U.M., 17. júní kórinn svokallaði, Pétur Á. Jónsson óperusöngvari og fleiri tónleika í því, húsið mun reyndar ekki hafa tekið nema um þrjú hundruð manns.

Rekstur hússins var sjómannafélaginu Bárunni þungur og svo fór að Knattspyrnufélag Reykjavíkur (KR) keypti það árið 1929 og þá lagðist almennt skemmtanahald niður í því enda höfðu þeir KR-ingar hug á því að húsið yrði fyrst og fremst notað til íþróttaiðkana.

Hljómsveit Oscars Johansen í Bárunni

1930 tók Fálkinn Báruna á leigu í tengslum við alþingishátíðina á Þingvöllum (sem haldin var í tilefni af 1000 ára afmæli alþingis) en þá komu erlendir upptökumenn frá Columbia útgáfufyrirtækinu hingað til lands með tæki sín og tól og tóku upp fjöldann allan af plötum í húsinu, enda þótti það vera með besta hljómburðinn á landinu. Fjöldi 78 snúninga platna með Einari E. Markan, Sigurði Skagfield, Hreini Pálssyni, Hljómsveit Reykjavíkur, Karlakórnum Geysi og mörgum öðrum voru teknar upp í þessari upptökulotu.

Við hernám Breta vorið 1940 var Bárubúð tekin eignarhaldi og var hún nýtt af hernum m.a. sem eins konar birgðageymsla og sjoppa, og þegar KR-ingar fengu það afhent aftur vorið 1945 þótti ljóst að húsið var ónýtt enda hafði þessu tæplega hálfrar aldar gamla húsi lítt eða ekki verið haldið við og hafði raunar verið í algjörri niðurníðslu síðan á þriðja áratugnum. Það varð því úr að Reykjavíkur-borg keypti Bárubúð af KR og lét rífa það sumarið 1945 en þá þegar var farið að huga að því að reisa ráðhús á byggingarreitnum. KR-ingar fengu hins vegar lóð á Melunum þar sem þeir eru enn.

Þar með lauk sögu eins fyrsta samkomu- og tónlistarhúss Reykjavíkur.