17. júní (1911-20)

Sönghópurinn 17. júní

Söngfélagið 17. júní var karlakór sem starfaði í nokkur ár við upphaf síðustu aldar undir stjórn Sigfúss Einarssonar tónskálds.

17. júní var stofnaður haustið 1911 og sótti nafn sitt til aldarafmælis Jón Sigurðssonar en hann fæddist 17. júní 1811 og var víða minnst á þeim tímamótum. Sigfús Einarsson stjórnaði kórnum frá upphafi sem taldi átján manns, framan af allavega.

Kórinn söng fyrst opinberlega í Bárubúð eða Bárunni eins og húsið var í daglegu tali kallað, í desember stofnárið. Fyrst um sinn sungu þeir félagar mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu, fóru t.a.m. til Hafnarfjarðar til tónleikahalds og sungu einnig fyrir sjúklinga á hvers kyns stofnunum, en síðar voru farnar tónleikaferðir út á land, svo sem til Akureyrar og Ísafjarðar, hvarvetna við góðar undirtektir.

Kórinn var öflugur allt til árins 1918 en þá virðist hafa verið farið að fjara undan honum, hvort sem orsökina var að finna í spænsku veikinni eða einhverju öðru þá var auglýst eftir söngmönnum þá um haustið, starfsemin lá niðri fram í febrúar en þá byrjuðu æfingar aftur og með aukamannskap því fyrirhugað var að kórinn færi utan í söngferðalag. Af þeim fyrirætlunum varð þó aldrei og kórinn lognaðist útaf, hann söng við jarðarför um sumarið 1919 og svo aftur á þjóðhátíðardaginn árið eftir en þá var það líka upptalið. Það var Árni Thorsteinsson sem stýrði kórnum síðasta skiptið sem hann kom fram.