Birkir Þór Guðmundsson (1964-)

Birkir Þór Guðmundsson

Birkir Þór Guðmundsson (f. 1964), oft kallaður rokkbóndinn, sendi árið 1997 frá sér fjögurra laga plötuna Á afskekktum stað en titill plötunnar vísar til heimabyggðar hans á Ingjaldssandi en Birkir er þaðan.

Birkir starfrækti um skeið á níunda og tíunda áratugnum dúett ásamt Árna Brynjólfssyni undir nafninu Rokkbændur og þaðan kemur viðurnefni hans – þeir félagar komu m.a. við sögu á safnplötunni Vestan vindar (1989) undir því nafni. Hann hefur einnig töluvert komið fram einn síns liðs með gítarleik og söng, aðallega fyrir vestan – og reyndar mun hann á sínum tíma hafa troðið upp stöku sinnum í fjárhúsunum heima hjá sér á Hrauni á Ingjaldssandi um verslunarmannahelgar, einnig á dansleikjum Önfirðingafélagsins. Birkir bjó um tíma í Noregi og lék þar með þarlendum hljómsveitum auk þess sem hann starfrækti þar dúettinn Duo brothers við annan mann.

Birkir hefur minna fengist við tónlist að því er virðist hin síðari ár en hann nam rekstrarhagfræði á Noregsárum sínum og hefur starfað við orkugeirann eftir að hann fluttist aftur heim til Íslands um aldamótin.

Efni á plötum