Bjarni Bjarnason frá Brekkubæ (1897-1982)

Bjarni Bjarnason frá Brekkubæ

Bjarni Bjarnason frá Brekkubæ var einn þeirra alþýðutónlistarmanna sem rifu upp tónlistarlífið með óeigingjörnum hætti í sínu héraði með einum eða öðrum hætti, í hans tilviki var m.a. um að ræða kórstjórnun og organistastarf.

Bjarni var fæddur að Tanga í Fljótshverfi í Vestur-Skaftafellssýslu 1897 en flutti í nokkur skipti barn að aldri áður en fjölskyldan settist að á Brekkubæ í Hornafirði í Austur-Skaftafellssýslu þaðan sem Bjarni kenndi sig við síðan enda bjó hann þar lungann úr ævi sinni.

Bjarni fékk ekki eiginlegt tónlistaruppeldi en honum var tónlistin greinilega í blóð borin því ári eftir að hann kom aftur heim í heimabyggð sína eftir ársdvöl við Gagnfræðaskólann á Akureyri (1915-16) þar sem hann nam m.a. orgelleik hjá Magnúsi Einarssyni, hóf hann að stjórna kirkjukór Bjarnaneskirkju og gerðist um leið organisti í sókninni. Kórstjórninni og organistastarfinu gegndi hann í ríflega sex tugi ára og er það vafalaust með hærri tölum sem heyrast í því samhengi. Bjarni fór einnig til Reykjavíkur veturinn 1928-29 og nam orgelleik í tvo mánuði hjá Páli Ísólfssyni og á sama tíma sótti hann söngtíma til Sigurðar Birkis en hann þótti ágætur söngmaður og var tenór. Aðra tónlistarlega menntun hlaut Bjarni ekki.

Bjarni stofnaði einnig Karlakór Hornafjarðar árið 1937 og stjórnaði honum í um þrjátíu ár, sá kór leið undir lok og Karlakórinn Jökull var síðan stofnaður upp úr gamla kórnum. Auk kórstjórnanda- og organistahlutverksins annaðist hann tónlistarkennslu í héraðinu í áratugi, kenndi mestmegnis á orgel. Sú kennsla, auk kóræfinga, fór að mestu leyti fram heima í Brekkubæ.

Bjarni var einnig tónskáld, samdi sönglög m.a. og má m.a. nefna héraðssönginn Hornafjörð sem dæmi um tónsmíð hans, í tilefni af áttræðis afmælis hans árið 1977 gáfu fyrrum kórfélagar úr Karlakór Hornafjarðar út nótnabók með tónlist hans en hún bar heitið 14 sönglög eftir Bjarna Bjarnason Brekkubæ, Hornafirði. Um sama leyti var hann gerður að heiðursborgara Nesjahrepps fyrir ævistarf sitt að félagsmálum en Bjarni var einnig öflugur ungmennafélagsmaður, starfaði í sóknarnefnd, hreppsnefnd, skólanefnd o.fl. Hann var um langt skeið formaður kirkjukórasambands A-Skaftafellssýslu.

Bjarni lést árið 1982.