Bjarni Böðvarsson (1900-55)

Bjarni Böðvarsson

Fáir hafa haft jafn mikil áhrif á íslenskt tónlistarlíf og Bjarni Böðvarsson en hann var áberandi með danshljómsveit sína á fyrri hluta síðustu aldar og varð fyrstur allra til að fara með hljómsveit sína út á landsbyggðina, hann var ennfremur framarlega í að kynna tónlist í nýstofnuðu ríkisútvarpi, var einn af þeim sem höfðu frumkvæði að því að stofna FÍH, var formaður þess lengi og barðist fyrir réttindum tónlistarmanna. Hann færði okkur aukinheldur Ragga Bjarna.

Bjarni fæddist í Reykjavík aldamótaárið 1900 en flutti með fjölskyldu sinni ungur vestur á Hrafnseyri við Arnarfjörð þar sem faðir hans hlaut prestsembætti, og þar ólst hann upp.

Hann var ekki nema sex ára þegar hann hóf að læra á einfalda harmonikku en síðar átti hann eftir að læra á píanó. Hann nam einnig orgelleik hjá Sigfúsi Einarssyni og Sigurði Þórðarsyni síðar og enn síðar lærði hann tón- og hljómfræði hjá Emil Thoroddsen og Hallgrími Helgasyni. Bjarni lék reyndar á fjöldann allan af hljóðfærum og eru hér nefnd auk þeirra sem þegar hafa verið upptalin fiðla, selló, klarinetta, saxófónn og kontrabassi.

Bjarni fluttist aftur til Reykjavíkur um fimmtán ára aldur og fór þá í Verzlunarskóla Íslands en lauk reyndar aldrei prófi þaðan enda var tónlistin þá að taka yfir í lífi hans. Fyrsta opinbera giggið var á skóladansleik í skólanum en hann lék þar á píanó, slíkir dansleikir höfðu reyndar ekki tíðkast hér á landi svo segja má að Bjarni hafi þar brotið blað.

Það var ekki löngu síðar sem hann var farinn að troða upp með Karli Matthíassyni fiðluleikara en síðar höfðu þeir myndað hljómsveit í nafni Karls sem lék eins konar kaffihúsatónlist þar sem Bjarni lék á saxófón og klarinettu á Hótel Heklu og síðan Hótel Borg þegar það var opnað 1930 en hann lék einnig á Borginni með fleiri sveitum, Hljómsveit Jack Quinet og Hljómsveit Arthurs Roseberry, til ársins 1935. Hann var ennfremur í Hljómsveit Aage Lorange á árunum 1936-42 og var um tíma einnig í Lúðrasveitinni Hörpu og Hljómsveit Reykjavíkur svo hann hafði yfirið nóg að gera í tónlistinni.

Bjarni hafði tónlistina ekki að aðalstarfi strax, hann var t.d. við verslunarstörf um tíma auk þess sem hann starfaði sem bílstjóri hjá Steindóri en hafði tónlistina á kvöldin. Hann leigði ásamt bróður sínum jörð um tíma og stundaði einhvern sumarbúskap en frá árinu 1929 helgaði hann sig tónlistinni að öllu leyti, e.t.v. hefur það haft einhver áhrif að hann hafði verið lítillega bæklaður á fæti frá fæðingu og gat því lítið stundað erfiða líkamlega vinnu en auðvitað átti tónlistin hug hans allan.

Þegar Ríkisútvarpið var sett á laggirnar 1930 var Bjarni ásamt fleirum ráðinn fljótlega til starfa þar sem lausamaður, þar lék hann m.a. á harmonikku og lágfiðlu við ýmis tækifæri og síðar (1935) gekk hann til liðs við Útvarpshljómsveitina sem starfaði undir stjórn Þórarins Guðmundssonar.

Hljómsveit Bjarna Böðvarsson og Haukur Morthens 1947

Bjarni áttaði sig á í starfi sínu sem tónlistarmaður að ekki sátu allir tónlistarmenn við sama borð og tilhneiging var til að ráða fremur erlenda listamenn til starfa en íslenska. Hann hafði því frumkvæði af því ásamt fleirum að stofna hagsmunasamtök, Félag íslenskra hljóðfæraleikara (FÍH) árið 1932 sem síðar varð að Félagi íslenskra hljómlistarmanna. Bjarni varð formaður félagsins og gegndi reyndar því embætti í átján ár af þeim tuttugu og þremur sem hann átti eftir ólifuð. Hann barðist fyrir að Íslendingar fengju störf þeirra erlendu en einnig voru önnur réttindamál sem þurfti að berjast fyrir, sagan segir t.d. að vertinn á Hótel Borg, Jóhannes „glímukappi“ Jósefsson hafi neitað einhverju sinni að sjá hljómsveit Bjarna fyrir kaffi og meðlæti í spilapásum og því hafi Bjarni og félagar mætt með kaffibrúsa að heiman ásamt rúgbrauði og lifrarkæfu til að gæða sér á uppi á sviðinu. Það þurfti ekki nema þetta eina skipti. Í annað skipti vildi Bjarni fjölga í hljómsveit sinni en Jóhannes var ekki til í þann kostnað en meðlimir hennar voru þá á tímakaupi. Bjarni stakk þá upp á því að Jóhannes myndi hækka t.d. gjaldið í fatageymslunni um helming til að unnt væri að bæta manni við því gjaldið hafði þá verið óbreytt í fjölda ára. Jóhannesi fannst hugmyndin um hækkun gjaldsins góð og framkvæmdi hana en þverneitaði samt að fjölga um meðlim í hljómsveit Bjarna.

Árið 1935 stofnaði Bjarni hljómsveit innan FÍH og lék sú sveit stöku sinnum í útvarpinu og gekk þá undir nafninu Danshljómsveit Útvarpsins. Þetta var fimm manna sveit sem gekk illa að manna innan FÍH og að lokum stofnaði Bjarni eigin sveit upp úr henni 1936 sem kallaðist Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar eða Danhljómsveit Bjarna Böðvarssonar og hún átti eftir að starfa þar til Bjarni lést 1955. Sú sveit lék margsinnis undir í útvarpsþáttum sem Bjarni annaðist um tíma, og báru nafnið Gamlar minningar.

Bjarni Böðvarsson

Hljómsveit Bjarna lék í samkomuhúsum höfuðborgarsvæðisins en hún varð einnig fyrst danshljómsveita til að fara út á land og spila fyrir fólkið þar, við mikla hrifningu og aðsókn. Sonur Bjarna, Ragnar Bjarnason var meðal meðlima sveitarinnar um tíma en hann var trommuleikari hennar. Eiginkona Bjarna, Lára Magnúsdóttir hefur verið nefnd sem fyrsta dægurlagasöngkona á Íslandi en ekki liggur fyrir hvort hún söng einhverju sinni í hljómsveit Bjarna.

Hljómsveit Bjarna var í fyrstu skipuð fimm manns en fór upp í það að verða að hálfgerðri stórsveit um tíma, hún var tólf manna ásamt tveimur söngvurum í tónleikaferð sem farin var einhverju sinni í kringum landið.

Bjarni Böðvarsson var stundum kallaður Bjarni Bö og hljómsveit hans Hljómsveit Bjarna Bö, skýringin á þessu liggur í að einhverju sinni var sveit hans að leika undir í revíusýningu á höfuðborgarsvæðinu árið 1942 og í einu lagi sýningarinnar var lítillega minnst á Bjarna, þar sem hendingin þurfti að ríma við nafnið Þorsteinn Ö. þótti eðlilegast að hafa þar Bjarni Bö.

Hljómsveit Bjarna lék undir á nokkrum plötum sem komu út með söngvurum eins og Sigurði Ólafssyni, Guðrúnu Á. Símonar og Hauki Morthens en einnig voru gerðar upptökur í Ríkisútvarpinu á sínum tíma sem síðar voru gefnar út undir nafninu Útvarpsperlur 1940-1953, árið 1999.

Bjarni samdi tónlist einnig sjálfur, mestmegnis munu það hafa verið sönglög og meðal þeirra má nefna lagið Meira fjör! sem Sigurður Ólafsson söng inn á plötu 1952, Ágúst bróðir Bjarna samdi textann við lagið en hann var kunnur textasmiður. Bjarni kom að öðrum tónlistartengdum málum en hér hafa verið talin upp, hann kenndi t.d. á harmonikku, annaðist píanóstillingar og var stundum dómari í danslagakeppnum SKT sem nutu mikilla vinsælda.

Bjarni varð ekki langlífur, hann fékk krabbamein sem dró hann til dauða á fáeinum mánuðum en hann lést á afmælisdaginn sinn haustið 1955 aðeins 55 ára gamall. FÍH kostaði jarðarför Bjarna og legstein enda var hann hátt metinn innan félagsins, og sagður hafa unnið þrekvirki þegar hann barðist fyrir réttindum félagsmanna. Þegar félagið varð hálfrar aldar gamalt árið 1982 var minningu hans haldið á lofti og lof borið á starf hans og elju, og þá var einnig sett saman hljómsveit í anda hljómsveita hans sem lék á afmælistónleikunum.