Afmælisbörn 21. nóvember 2015

Björk - Bachelorette 2 (ep)

Björk Guðmundsdóttir

Sex afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni og þar af er stórt nafn í íslenskri tónlist með stórafmæli:

Björk Guðmundsdóttir tónlistarkona er fimmtug á þessum degi. Björk hefur fengist við tónlist frá barnsaldri, var þá í hljómsveitum eins og Jam ´80, Exodus og Draumsýn en síðar í sveitum eins og Tappa tíkarrassi, Kukli og Sykurmolunum. Útgáfuferill Bjarkar er einstakur en auk platna með hljómsveitum sínum hefur hún gefið út fjölda sólóplatna, þá fyrstu aðeins ellefu ára gömul en með fyrstu „alvöru“ plötunni, Debut, öðlaðist hún heimsfrægð og hefur síðan selt milljónir platna um heim allan. Björk hefur hlotið ógrynni viðurkenninga fyrir tónlistarsköpun sína.

Jónas Tómasson (yngri) tónskáld og tónlistarfrömuður frá Ísafirði er sextíu og níu ára, hann starfaði á sínum yngri árum með Heimi Sindrasyni undir nafninu Heimir og Jónas, og gáfu þeir út plötur á sínum tíma en síðan þá hefur tónskáldið í honum fengið meira vægi.

Áskell Másson tónskáld og ásláttarleikari er sextíu og tveggja ára, framan af var hann þekktur fyrir ásláttarfærni sína og þá starfaði hann í hljómsveitum eins og Náttúru, Combói Þórðar Hall, Acropolis og síðar Rússíbönum. Síðar lagði Áskell áherslu á tónskáldahlutverk sitt og hafa verið gefnar út fjölmargar plötur með verkum eftir hann.

Margrét Örnólfsdóttir tónskáld og hljómborðsleikari er fjörutíu og átta ára, Margrét hefur samið leikhúsa- og kvikmyndatónlist og verið áberandi í þeim geiranum en hún starfaði einnig í nokkrum þekktum hljómsveitum á sínum tíma, eins og Sykurmolunum og Risaeðlunni. Hún hefur sent frá sér sólóplötur með eigin efni.

Sigríður Thorlacius söngkona Hjaltalín er þrjátíu og þriggja ára gömul í dag, hún er einnig með þekktari popp- og dægurlagasöngkonum síðustu ára og hefur m.a. sungið með Memfismafíunni og Heiðurspiltum, og hefur aukinheldur þótt aufúsugestur á plötum og tónleikum annarra listamanna.

Einnig hefði Bjarni Böðvarsson harmonikkuleikari átt afmæli þennan dag. Bjarni (f. 1900) sem iðulega var kallaður Bjarni Bö rak hljómsveit undir eigin nafni um árabil, hann var einn af stofnendum FÍH og var um tíma formaður þess. Bjarni, sem var faðir Ragga Bjarna, lést 1955.