Bjarni Tryggva (1963-)

Bjarni Tryggvason

Söngvaskáldið Bjarni Tryggvason var á tímabili áberandi í íslensku tónlistarlífi en hann sendi frá sér tvær breiðskífur með stuttu millibili á níunda áratugnum sem vöktu nokkrar athygli. Minna hefur farið fyrir honum síðustu árin en alls liggja eftir hann fimm plötur.

Bjarni Tryggvason (yfirleitt kallaður Bjarni Tryggva) er fæddur (1963) og uppalinn á Norðfirði og þar eystra hófst tónlistarferill hans. Hann var farinn að gutla á gítar um fjórtán eða fimmtán ára aldur og var fljótlega upp úr því farinn að semja eigin lög og texta. Hann fór á sjóinn ungur og nýtti frítímann þar til að þróa tónlist sína, og fór að koma fram einn með gítar á heimaslóðum líklega strax um sextán ára aldur, vorið 1980 kom hann í fyrsta skipti fram opinberlega á höfuðborgarsvæðinu þegar hann tróð upp á Vísnakvöldi í Þjóðleikhúskjallaranum.

Nokkur ár liðu áður en Bjarni fór að vekja verulega athygli en það mun hafa verið í einhverjum gleðskap á Akranesi sem Pétur Kristjánsson uppgötvaði hann og lét Steinar Berg útgefanda vita af honum. Í kjölfarið sendi Bjarni frá sér sína fyrstu plötu, Mitt líf: bauðst eitthvað betra? en hann var þá nýorðinn tuttugu og þriggja ára gamall. Það var árið 1986. Platan hafði að geyma lög og texta Bjarna en hann hafði sér til fulltingis nokkra af fremstu tónlistarmönnum landsins, m.a. úr hljómsveitinni Grafík. Mitt líf hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda, þokkalega dóma í sjómannablaðinu Víkingi og ágæta í DV, Morgunblaðinu og Helgarpóstinum en lagið Kjaftakerling naut hvað mestra velgengni.

Um svipað leyti og platan kom út spilaði hann á fyrstu stóru tónleikunum sínum en hann var þá einn þeirra er hituðu upp fyrir Lloyd Cole and the Commotions og Simply Red á Listapopp-tónleikunum í Laugardalshöllinni sumarið 1986. Á þeim sömu tónleikum voru Greifarnir að stíga sín fyrst alvöru spor eftir sigurinn í Músíktilraunum um vorið og mun Bjarni hafa aðstoðað þá við textagerð í laginu Útihátíð, sem hefur verið hálfgert einkennislag þeirrar sveitar síðan.

Í kjölfar útgáfu Míns lífs setti Bjarni saman hljómsveit til að fylgja plötunni eftir þrátt fyrir að tónlistin væri í grunninn trúbadoratónlist en hún hafði verið sett fram í hljómsveitaformi á plötunni, sú sveit fékk heitið Ný augu og starfaði í nokkra mánuði. Eftir áramótin 1987-88 fór hann hins vegar af stað í tónleikaferð í kringum landið ásamt Bjartmari Guðlaugssyni og þess konar tónleikaform hentaði honum mun betur.

Bjarni Tryggva árið 1987

Vorið 1987 hóf Bjarni að vinna sína aðra breiðskífu, nokkrar prufuupptökur voru gerðar og Fálkinn bauðst til að gefa plötuna út sem kom síðan á sjónarsviðið síðsumars. Hún hét Önnur veröld og þótti nokkuð ólík fyrstu plötunni en var þó með textum sem þóttu nokkuð þunglyndislegir og hálfgerðir heimsósómatextar svipað og á fyrri plötunni. Það var því ekki skrýtið þótt margir héldu Bjarna þunglyndan.

Bjarni fékk aftur fjöldann allan af þekktu tónlistarfólki með sér og annaðist Sigurgeir Sigmundsson upptökuþáttinn en upptökurnar fóru fram í Hljóðrita og Sýrlandi. Aðeins einn dómur virðist hafa birst um plötuna, þokkalegur dómur í DV. Eins og við fyrri plötuna setti Bjarni saman hljómsveit sem fylgdi Annarri veröld eftir, hún hlaut síðar nafnið Stiftamtmannsvalsinn en varð ekki áberandi.

Bjarni dró sig í hlé frá athyglinni eftir áramótin 1987-88 en hélt eitthvað áfram að koma fram einn með gítarinn. Hann fluttist austur á Höfn í Hornafirði og þar var hann næstu árin og nam þá netagerð, hann spilaði eitthvað eystra, stundum ásamt Steinari Gunnarssyni æskuvini sínum en kom stöku sinnum til Reykjavíkur og tróð upp á pöbbunum. Þá vann hann lítillega með hljómsveitinni Súellen, samdi m.a. texta fyrir þá.

Það var síðan vorið 1994 sem Bjarni Tryggva hóf að birtast aftur að einhverju ráði og í blaðaviðtali sagðist hann stefna á að gefa út plötu og fara síðan á flakk um Norðurlöndin til að spila. Platan kom síðan út nokkru síðar og fékk heitið Svo lengi sem það er gaman, hún innihélt lög frá ýmsum tímum og sem fyrr komu margir kunnir tónlistarmenn þar við sögu. Platan fékk þó varla nema sæmilega dóma í Morgunblaðinu og DV og hlaut minni athygli almennt en hinar plöturnar tvær á undan.

Bjarni fylgdi plötunni minna eftir en áður, var eitthvað á ferðinni einn með gítarinn og þannig vann hann næstu árin en hann var nokkuð áberandi í trúbadorasenunni allt til ársins 2000, m.a. með hin svokölluðu dónakvöld þar sem hann spjallaði við áhorfendur á milli þess sem hann lék tónlist sína.

Í byrjun nýrrar aldar fór minna fyrir honum en hann komst í fréttirnar árið 2004 þegar rússneskur milljónamæringur á ferð með vinum sínum um Ísland sá hann spila á Dubliner og bauð honum með í einkaþotu til Írlands þar sem hann skemmti þeim í nokkra daga gegn veglegri greiðslu.

Fljótlega eftir þá uppákomu hvarf Bjarni af sjónarsviðinu en hann fór þá til Kanaríeyja þar sem hann bjó um tíma. Hann tróð upp reglulega þar fyrir þarlenda og Íslendinga einnig og notaði tækifæri til að taka upp plötu sem fékk nafnið Svartar rósir og kom út árið 2006. Þetta var tíu laga plata og naut Bjarni aðstoðar nokkurra spænskra tónlistarmanna en einnig kom harmonikkuleikarinn Örvar Kristjánsson við sögu á plötunni en hann dvaldi lungann úr árinu á Kanarí og skemmti þar pöbbagestum. Ein gagnrýni birtist um plötuna, þokkalegur dómur sem kom í Morgunblaðinu. Um svipað leyti og Svartar rósir komu út fluttist Bjarni aftur heim og starfaði hér um tíma án þess þó að vera áberandi í íslensku tónlistarlífi.

Síðustu árin hefur hann búið í Danmörku og árið 2016 sendi hann frá sér plötu ásamt æskuvini sínum Steinari Gunnarssyni, sem áður hefur verið minnst á, en sú plata heitir einfaldlega Vinir. Sú plata fór framhjá fjölmiðlum hér heima.

Efni á plötum