Afmælisbörn 6. desember 2022

Bjarni Tryggva

Fimm afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Grímur Atlason tónlistarmaður og margt annað, er fimmtíu og tveggja ára gamall á þessum degi. Grímur hefur starfað með ótal hljómsveitum í gegnum tíðina, verið bassaleikari í sveitum eins og Drep, Dr. Gunni, Grjóthruni í Hólshreppi, Unun, Rosebud og Ekki þjóðinni og hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves svo eitthvað sé nefnt.

Steingrímur Þórhallsson tónskáld, organisti og kórstjóri er fjörutíu og átta ára í dag, Steingrímur sem hefur einnig gengið undir nafninu Stein Thor, sigraði í alþjóðlegri dægurlagasamkeppni undir því nafni en hann hefur einnig starfað í sönghópnum Rinascente sem sérhæfði sig í tónlist frá endurreisnartímanum og SMS-tríóinu sem lagði áherslu á barrokk tónlist. Það kemur því nokkuð á óvart að Steingrímur var meðal þeirra sem skipuðu hljómsveitina Reggae in ice í upphafi.

Gítarleikarinn Guðmundur Pétursson á stórafmæli en hann er fimmtugur í dag en hann hefur verið landsþekktur síðan hann kom fram í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins vorið 1987 en hann var þá aðeins fimmtán ára. Síðan þá hefur hann leikið inn á tugi ef ekki hundruð platna og er meðal virtustu gítarleikara landsins, ekki síst í blúsgeiranum. Guðmundur hefur ennfremur gefið út nokkrar sólóplötur.

Þá á Tryggvi Tryggvason (Jóhannsson) fyrrum hljóðvinnslumaður sem hefur starfað í Bretlandi mörg undanfarin ár einnig stórafmæli en hann er áttræður. Tryggvi sem reyndar er rafmagnsverkfræðingur, er fæddur á Íslandi en fluttist ungur til Bretlands, hann starfaði um tíma við upptökur hjá Decca fyrirtækinu en starfrækti eigin fyrirtæki í bransanum og vann til fjölda verðlauna og viðurkenninga í klassíska hluta fræðanna.

Að lokum er hér nefndur trúbadorinn Bjarni Tryggva frá Norðfirði sem er fimmtíu og níu ára gamall á þessum degi. Bjarni vakti athygli á síðari hluta níunda áratugarins þegar hann sendi frá sér tvær sólóplötur en síðan varð bið á efni frá honum meðan hann m.a. flakkaði um Norðurlöndin til að spila. Þrjár plötur í viðbót hafa komið út með Bjarna en hann hefur búið erlendis síðustu árin.

Vissir þú að Einar Örn Benediktsson, Curver og Stilluppsteypa sendu eitt sinn lag í Jólalagakeppni Rásar 2?