Tryggvi Tryggvason [2] (1942-)

Tryggvi Tryggvason

Upptökumaðurinn Tryggvi Tryggvason er ekki með þekktstu hljóðversmönnum hér á landi en hann hefur um árabil skapað sér nafn meðal þeirra virtustu í klassíska geira tónlistarinnar og unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga.

Tryggvi (skírður Tryggvi Jóhannsson) fæddist á Íslandi 1942 en fluttist þriggja ára með fjölskyldu sinni til Bretlands við stríðslok 1945 en systir hans, Þórunn Jóhannsdóttir var þá undrabarn í tónlistinni (og varð síðar þekkt sem píanóleikari og eiginkona Vladimirs Ashkenazy) en það var líkast til aðal ástæða þess að fjölskyldan hleypti heimdraganum. Fjölskyldan tók við flutninginn upp Tryggvason nafnið að breskum sið og því lagði hann föðurnafn sitt til hliðar.

Tryggvi hlaut lítinn tónlistarlegan bakgrunn, hann nam rafmagnsverkfræði en heillaðist síðan af þeim möguleikum sem upptökutæknin hafði upp á að bjóða og hóf að starfa í þeim geira, hann hefur sérhæft sig í upptökum á klassískri tónlist.

Hann stofnaði og rak hljóðvers- og útgáfufyrirtækið Trygg recordings í nokkur ár áður en hann starfaði í um áratug við Decca útgáfufyrirtækið við hljóðupptökur, hann fékkst einnig um tíma við kennslu í upptökufræðum við háskólann í Norwich. Árið 1989 stofnaði hann svo í félagi við annan útgáfu- og upptökufyrirtækið Modus music og nokkru síðar Merlin Classics í Bretlandi en hið fyrrnefnda er líklega enn starfandi. Tryggvi hefur komið að útgáfu og upptökum á hundruðum platna og hann hefur ennfremur fengið fjöldann allan af viðurkenningum og verðlaunum fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, t.a.m. nokkur Gramophone verðlaun í ýmsum flokkum.

Tryggvi hefur lítil sambönd við Íslands í dag og hefur sjaldan komið til upprunalands síns en í einni af heimsóknum sínum hingað vann hann við að koma á víðóma (stereó) útsendingum á hjá Ríkisútvarpinu, hann hefur einnig komið að nokkrum hljóðupptökum hér á landi.