Tryggvi Tryggvason [1] (1909-87)

Tryggvi Tryggvason

Söngvarinn Tryggvi Tryggvason var fremur þekktur hér fyrr á árum fyrir söng sinn í útvarpi ásamt félögum sínum, hann kom þó víðar við í sönglist sinni.

Tryggvi (Frímann) Tryggvason fæddist 1909 í Gufudal á Barðaströnd en var iðulega kenndur við Kirkjuból, þar sem hann bjó hjá foreldrum sínum og fjölskyldu. Hann lauk kennaranámi og hóf að kenna, fyrst á Ísafirði og síðan í Reykjavík og átti eftir að kenna fyrir vestan aftur. Lengst af var hann kennari við Melaskóla og þar hélt hann m.a. utan um morgunsönginn.

Tryggvi, sem var tenór, söng með kórum, m.a. Kirkjukór Ísafjarðar, Sunnukórnum á Ísafirði og Karlakór Reykjavíkur, og stundum einsöng með þeim kórum en hann var þó þekktastur fyrir söng sinn í útvarpssal en hann söng þar fyrst líklega 1936.

Síðar var hann með þátt í Ríkisútvarpinu sem kallaðist Höldum gleði hátt á loft, í þeim þáttum voru nokkrir söngfélagar með honum (líklega upp í sjö talsins) og gengu þeir undir nafninu Tryggvi Tryggvason og félagar eða Tryggvi Tryggvason og sexmenningarnir hans. Hópurinn var eitthvað breytilegur að stærð og skipan en undir það síðasta voru í honum Ólafur Beinteinsson, Erlingur Vigfússon, Jóhann Guðmundsson, Friðrik Eyfjörð, Ívar Helgason og Þorsteinn Helgason auk Tryggva. Þórarinn Guðmundsson lék yfirleitt undir hjá þeim félögum, sem voru vinsælt útvarpsefni allt fram á áttunda áratuginn.

Löngu síðar eða árið 2003 gaf Ríkisútvarpið út þrjár plötur í safnplöturöðinni Útvarpsperlur, sem voru tileinkaðar Tryggva Tryggvasyni og félögum með samtals sjötíu lögum.

Tryggvi lést snemma árs 1987.

Efni á plötum