Afmælisbörn 24. október 2020

Tryggvi Tryggvason

Í dag eru tvö afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Karl Ottó Runólfsson tónskáld hefði átt afmæli í dag. Karl fæddist aldamótaárið 1900, nam trompet- og píanóleik, auk þess ljúka námi í hljómsveitaútsetningum og tónsmíðum. Hann var einn af stofnendum Lúðrasveitar Reykjavíkur og stýrði nokkrum lúðrasveitum og danshljómsveitum víða um land, hann sinnti ennfremur tónlistarkennslu en lék jafnframt á trompet með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Karl var þó fyrst og fremst tónskáld, samdi ýmis konar verk, allt frá sönglögum til stærri verka og eftir andlát hans 1970 kom út platan Förumannaflokkar þeysa…: úrval úr tónverkum, sem hafði að geyma brot af verkum Karl. Verk hans er einnig að finna á fjölda platna annarra listamanna.

Tryggvi (Frímann) Tryggvason kennari (1909-87) átti einnig afmæli á þessum degi en hann var þekktur söngvari, söng margsinnis í útvarpssal og söng einnig einsöng með ýmsum kórum. Þá var hann með útvarpsþátt sem bar titilinn Tryggvi Tryggvason og félagar en í honum sungu með honum nokkrir söngfélagar lög úr ýmsum áttum við miklar vinsældir. Ríkisútvarpið gaf snemma á þessari öld út þrjár plötur með söng þeirra félaga.