Afmælisbörn 25. október 2020

Skúli Gautason

Afmælisbörn dagsins eru eftirfarandi:

Skúli Gautason tónlistarmaður og leikari er sextíu og eins árs gamall í dag. Skúli hefur sungið, leikið og samið tónlist með ýmsum hljómsveitum s.s. Sniglabandinu, Rjúpunni, Útlögum og Púngó & Daisy, og margir muna eftir honum í eftirminnilegum útvarpsþáttum Sniglabandsins. Þess má geta að Skúli söng upprunalegu útgáfuna af laginu Jólahjóli sem kom út á tveggja laga plötu árið 1984.

Pálmi J. Sigurhjartarson píanó- og hljómborðsleikari er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Pálmi hefur leikið inn á ógrynni platna í gegnum tíðina sem og starfað með þekktum hljómsveitum eins og Sniglabandinu, Centaur og Vinum Sjonna en einnig sveitum eins og Pöbb-bandinu Rockola, Black cat bone, Perez duo, Snillingunum, Íslandsvinum og Rokk.

Ingibjörg Þorbergs hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hún lést 2019. Ingibjörg (f. 1927) kom snemma að tónlist, hún söng t.d. í barnakórnum Sólskinsdeildinni og söng einsöng með honum einhverju sinni. Hún lærði síðan á gítar og píanó, lauk tónmenntakennaraprófi og varð fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi á klarinettu. Ingibjörg söng fjölmörg þekkt lög inn á plötur, mörg þeirra voru eigin lög, t.a.m. Aravísur, Man ég þinn koss, Nú ertu þriggja ára og auðvitað jólalagið Hin fyrstu jól. Hún starfaði lengi við Ríkisútvarpið, sá t.a.m. um barnatíma útvarpsins, var þula um tíma og var á tónlistardeildinni ennfremur, auk ýmissa annarra starfa.