Karl O. Runólfsson (1900-70)

Karl O. Runólfsson2

Karl O. Runólfsson

Karl Ottó Runólfsson skipar sér meðal fremstu tónskálda íslenskrar tónlistarsögu en hann kom miklu víðar við á sínum ferli.

Karl fæddist í Reykjavík aldamótaárið 1900 og hneigðist snemma til tónlistar, hann var ungur kominn í drengjakór hjá Brynjólfi Þorlákssyni og lúðrasveit IOGT (góðtemplara), og litlu síðar í lúðrasveitina Svan (hina fyrri) sem stofnuð var upp úr templarasveitinni. Þar lék hann upphaflega á althorn en síðar náði hann ágætri færni á trompet sem varð hans aðalhljóðfæri ásamt fiðlu.  Karl var þannig mjög áhugasamur um lúðratónlist og varð einn af stofnendum Lúðrasveitar Reykjavíkur 1922 upp úr Hörpunni og Gígjunni en Gígjan hafði verið stofnuð upp úr fyrrnefndri sveit, Svaninum.

Karl lærði á trompet hjá Hallgrími Þorsteinssyni og hefur reyndar verið kallaður ásamt Hallgrími og Helga Helgasyni, faðir lúðurtóna á Íslandi. Þórarinn Guðmundsson var lærifaðir hans í fiðluleik en Karl lærði ennfremur pínulítið á píanó hjá Jóni Leifs. Síðar lærði hann tónsmíðar og útsetningar hjá Franz Mixa og Victor Urbancic hér heima.

Upphaflega ætlaði Karl sér að gerast prentari og nam þau fræði, hann starfaði við iðn sína í nokkur ár áður en hann söðlaði um og ákvað að gera tónlistina að aðalstarfi. Hann fór til að mynda til Kaupmannahafnar og lærði þar á trompet og fiðlu, auk tónfræði og hljómsveitaútsetninga. Hann lauk burtfararprófi á fiðlu löngu síðar.

Í Kaupmannahöfn drakk Karl í sig tónlistina og sá þar m.a. finnska tónskáldið Jean Sibelius í eigin persónu stjórna hljómsveit leika eigin verk á tónleikum og var það honum sjálfsagt hvati til að semja eigin tónlist. Hann var hins vegar dómharður og kröfuharður á eigið efni og mun hann síðar hafa eytt öllu sem hann samdi fyrir 1930.

Karl bjó um tíma á Akureyri (1929-34) og hafði heilmikil áhrif á tónlistarlíf þar í bæ, stjórnaði þar m.a. Lúðrasveitinni Heklu, kenndi tónlist og stofnaði hljómsveitir. Á Akureyri fór Karl fyrst að semja fyrir alvöru, m.a. fyrir karlakóra en tónsmíðar hans urðu síðar af mjög fjölbreytilegum toga.

Framan af hafði Karl leikið í hljómsveitum og hefur í því samhengi verið nefndur fyrstur Íslendinga sem rak hljómsveit sem eingöngu lék danstónlist, ekki liggur þó fyrir hvort það sé sveitin sem nefnd var einfaldlega Hljómsveit Karls Runólfssonar eða hvort það var Dansband Eimskipa. Karl lék því víða á veitinga- og dansstöðum um tíma en þá hlið lagði hann að mestu á hilluna þegar hann sneri sér að „alvarlegri“ tónlist og eigin tónsmíðum.

Karl lék þó áfram í annars konar hljómsveitum, s.s.. Hljómsveit Árna Björnssonar, Hljómsveit Reykjavíkur og Útvarpshljómsveitinni auk þess sem hann lék lengi með Sinfóníuhljómsveit Íslands (á trompet og fiðlu) eftir að sú sveit var sett á laggirnar 1950.

Karl stýrði einnig fjölmörgum hljómsveitum og kórum á sínum tíma, m.a. lúðrasveitinni Svani, hljómsveit Leikfélags Reykjavíkur, Karlakórnum Geysi, Lúðrasveit Hafnarfjarðar og lúðrasveit á Ísafirði en Karl fór í nokkrar skemmri ferðir út á landsbyggðina í því skyni að æfa lúðrasveitir. Hann var ennfremur umsjónarmaður og stjórnandi lúðrasveita barna- og unglingaskóla í Reykjavík um tíma og einn af stofnendum Lúðrasveitar Reykjavíkur sem hann stýrði um tíma einnig.

Auk þess að stýra og æfa hljómsveitir sinnti Karl alla tíð tónlistarkennslu, hann var einnig hljómfræðikennari við Tónlistarskólann í Reykjavík og vann að félagsmálum tónlistarmanna með ýmsum hætti, bæði fyrir STEF og Íslenska tónverkamiðstöð en hann var einnig einn af stofnendum Sambands íslenskra lúðrasveita og var fyrsti formaður þess – í áratug.

Karl Ottó Runólfsson

Karl á yngri árum

En Karl var auðvitað fyrst og fremst tónskáld og voru tónsmíðar hans af ýmsum toga, framan af voru það einsöngs- og karlakóralög eins og Í fjarlægð sem flestir ættu að þekkja, Förumannaflokkar þeysa og Den farende Svend, en síðar samdi hann stærri verk fyrir hljómsveitir eins og kammersveitaverk, kantötur, fiðlusónötur, strokkvartetta og hljómsveitasvítur svo dæmi séu tekin, sem flutt hafa verið við smærri og stærri viðburði s.s. opnun Þjóðleikhússins en Karl samdi einnig tónlist fyrir leikhús.

Karl lést fáeinum vikum eftir sjötugs afmæli sitt haustið 1970, eftir stutt veikindi og stuttu síðar kom út plata á vegum Fálkans sem hafði að geyma sýnishorn af tónsmíðum hans, platan bar titilinn Förumannaflokkar þeysa…: Úrval úr tónverkum, í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Stefáns Íslandi, Einars Kristjánssonar o.fl. Platan hlaut ágæta dóma í Vikunni.

Lög Karls hafa einnig komið út á plötum ýmissa annarra listamanna, þar má nefna plöturnar Ljós úr norðri: íslensk einsöngslög með Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Eddu Erlendsdóttur (1999), Fyrstu íslensku sónöturnar með Rut Ingólfsdóttur og Richard Simm (2007), Spjallað við spóa með Þórunni Guðmundsdóttur  (1995), Ljóðaperlur með Kristni Sigmundssyni (1986), Gekk ég aleinn með tónlistarhópnum KÚBUS (2014) og Íslensk einsöngslög með Þuríði Pálsdóttur (1986).

Efni á plötum