Afmælisbörn 5. desember 2022

Ellert Karlsson

Þá er komið að afmælisbörnum Glatkistunnar en að þessu sinni eru fjögur slík á skrá:

Lýður Árnason læknir og tónlistarmaður frá Flateyri á stórafmæli dagsins en hann er sextugur í dag. Lýður hefur komið víða við á tónlistarferli sínum, verið í hljómsveitum á borð við Kartöflumúsunum, Vítamíni, Grjóthruni í Hólahreppi og Göglum svo fáeinar séu nefndar. Hann var einnig viðloðandi Karlrembuplötuna sem kom út fyrir um fimmtán árum og vakti athygli.

Kristján Þór Matthíasson rappari fagnar í dag fjörutíu og tveggja ára afmæli sínu. Kristján Þór, sem einnig gekk undir nafninu StjániHeitirMisskilinn var áberandi í rappsenunni upp úr aldamótum og rappaði með sveitum eins og KVS (Kaldhæðni við stjórn), S og S, Skyttunum þremur, The No Bullshit Campaign (NBC) og Afkvæmum guðanna, sem sumar hverjar gáfu út plötur á sínum tíma.

(Kári) Ellert Karlsson trompet- og píanóleikari og lúðrasveitastjórnandi átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést fyrr á þessu ári. Ellert (fæddur 1944) var framarlega í starfi lúðrasveita hérlendis sem stjórnandi og útsetjari en hann stjórnaði t.a.m. sveitum eins og Lúðrasveit verkalýðsins, Lúðrasveit Vestmannaeyja, og Stórlúðrasveit SÍL svo aðeins fáeinar séu nefndar. Þá lék hann með Lúðrasveit Vestmannaeyja, Big bandi ´81, Lúðrasveitinni Svani, Tacton sextettnum, Öðlingum og fleiri sveitum.

Þá hefði Svala Nielsen óperusöngkona einnig átt afmæli í dag en hún lést árið 2016. Svala fæddist 1932, nam söng fyrst hér heima en síðan á Ítalíu og í Þýskalandi, hún söng síðar ýmis óperuhlutverk, með Einsöngvarakórnum en einnig sem einsöngvari á tónleikum, t.d. með Karlakór Reykjavíkur, bæði hér heima og erlendis. Söng hennar má heyra á mörgum plötum en hún gaf einnig sjálf út eina einsöngsplötu 1976.

Vissir þú að jólasálmurinn Heims um ból var saminn árið 1818?