Björn Magnússon (1951-)

Björn Magnússon

Fremur litlar upplýsingar er að finna um tónlistarmanninn Björn Magnússon sem starfað hefur lengst af í Svíþjóð, hann var viðloðandi hljómsveitir bræðra sinna, Vikivaka og Iceland á sjöunda, áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Hann vann sjálfur að sólóefni, gaf út eina tveggja laga smáskífu og hafði lokið vinnslu við breiðskífu en ekki liggur fyrir hvort sú plata kom nokkru sinni út.

Björn (Ingvi) Magnússon er fæddur 1951 en flutti ungur til Gautaborgar í Svíþjóð með fjölskyldu sinni og hefur líklega búið þar og starfað alla tíð. Þrír bræður hans starfræktu hljómsveitir í árabil og tvær þeirra, Vikivaki og Iceland gáfu út plötur. Þær sveitir komu báðar hingað til lands til tónleikahalds á áttunda áratugnum og lék Björn með þeim en hann kom stundum fram með sveitunum þótt hann teldist aldrei fullgildur meðlimur í þeim. Þeir bræður, Björn, Hans, Jón og Gunnar tóku upp sænska nafnasiði í Svíþjóð og tóku því upp föðurnafn föður síns sem hét Magnús Gíslason, og gengu þeir því undir Gíslason nafninu í Svíþjóð. Sjálfur starfaði Björn í öðrum hljómsveitum í Gautaborg.

Björn sendi frá sér tveggja laga plötu (Open up your window / Summer rain) á vegum Polydor útgáfunnar árið 1976 en litlar sögur fara af viðtökum. Hann vann síðan að breiðskífu ásamt sænskum hljóðfæraleikunum og sumarið 1978 var hún nánast fullunnin og var stefnt að útgáfu hennar í lok sumars en engar upplýsingar hafa fundist um þá plötu. Björn hafði þá m.a. unnið tvö lög í Hljóðrita í Hafnarfirði, Breakdown eftir Magnús Kjartansson og Welcome on another eftir Jóhann G. Jóhannsson. Fyrrnefnda lagið hafði líklega komið út áður með hljómsveitinni Júdas.

Allar frekari upplýsingar um Björn Magnússon / Björn Gíslason væru vel þegnar.

Efni á plötum