Vikivaki [1] (1966-80)

Vikivaki

Vikivaki

Þegar hljómsveitarnafnið Vikivaki heyrist kviknar sjálfsagt ekki á perunni hjá mörgum Íslendingum í dag en þessi sveit var íslensk-sænsk og starfaði um árabil í Svíþjóð þar sem hún gerði garðinn frægan, og reyndar víða. Heimildir um sveitina eru litlar og því stiklað á stóru hér en nokkuð vantar inn á milli og verður því að geta í eyður þar sem það á við.

Sveitin var í raun stofnuð 1966 í Svíþjóð sem skólahljómsveit en ekki liggur ljóst fyrir hverjir skipuðu sveitina í upphafi og e.t.v. fékk hún ekki nafn sitt fyrr en síðar. Það er þó ekki fyrr en 1973 sem hróður hennar barst til Íslands en þá kom hún fram á Íslandskynningu í Gautaborg og var hennar þá getið í íslenskum fjölmiðlum, þá er henni lýst sem þjóðlagarokksveit.

Vikivaki var þá skipuð bræðrunum Jóni sem söng og lék á trommur og Hans sem einnig söng en lék á píanó og gítar. Þeir voru Magnússynir (Gíslasonar) en voru titlaðir Gíslason eins og faðir þeirra vegna ættarnafnshefðar í Svíþjóð. Þeir bræður höfðu verið í henni frá upphafi. Þá voru Svíarnir Tommy Eriksson bassaleikari og Christer Modin gítarleikari einnig í sveitinni 1973.

Þetta sama ár, 1973 kom fyrsta smáskífa sveitarinnar út á vegum Plump productions en það var tveggja laga plata. Vikivaki mun hafa notið einhverrar hylli í Svíþjóð en fremur litlar heimildir finnast þó um það.

1974 hafði Steinar nokkur (sem heimildir segja ýmist Ottósson, Oddsson eða jafnvel Árnason) tekið við bassanum en bassaleikaraskipti áttu eftir að verða tíð hjá sveitinni það sem eftir lifði sögu hennar. Steinar hafði líklega ekki langa viðdvöl í sveitinni því næstur bassaleikara en nefndur Tony Borg.

Vikivaki1

Vikivaki

Sveitin fór þetta ár á flakk um Norðurlöndin og kom meðal annars til Íslands í fyrsta skipti en sú heimsókn varð sú fyrsta af mörgum til landsins næstu árin.
Sumarið 1974 vann Vikivaki að stórri plötu sem kom út 1975 og bar heitið Oldsmobile (eða Oldsmobil). Á þeirri plötu er að finna lagið Riding, riding sem er þeirra útgáfa af laginu Á Sprengisandi en um svipað leyti gaf hljómsveitin Pelican lagið einnig út og mun hafa hallað nokkuð á þá Vikivakamenn þegar útgáfurnar voru bornar saman, að mati íslenskra fjölmiðla. Þetta sama ár kom líklega einnig út lítil plata með laginu Didn‘t I?, sem gæti verið smáskífa af Oldsmobile, en það lag naut nokkurra vinsælda í Svíþjóð.

Þriðji bróðirinn, Gunnar Magnússon var þarna kominn í Vikivaka, fyrst sem bassaleikari en hann færði sig yfir á gítar þegar bassaleikarinn Tommy Eriksson virðist hafa komið aftur í bandið. Fjórði bróðirinn Björn Magnússon mun einnig hafa unnið nokkuð með sveitinni þótt ekki væri hann fastur meðlimur í henni.
Og Vikivaki hélt áfram störfum og kom reglulega til Íslands til spilamennsku, 1976 kom út tveggja laga smáskífa með sveitinni og 1977 komu út þrjár smáskífur í viðbót og fór að minnsta kosti ein þeirra á markað víðsvegar um Evrópu. Lagið Soulstar varð nokkuð vinsælt í sunnanverðri álfunni. Smáskífurnar voru liður í að kynna væntanlega breiðskífu sem kom út þetta sama ár og hét Cruising, sveitin hafði þá gert þriggja plötu samning á jafnmörgum árum við CBS.

Nýr bassaleikari var kominn til sögunnar, Kenny Olsson, en hann lék þó ekkert á plötunni.

Þótt ekki hafi Cruising farið hátt hérlendis á síðari árum birtust þó dómar um hana hér í helstu prentmiðlum, platan hlaut ágæta dóma í Tímanum og sæmilega í Morgunblaðinu og Dagblaðinu en fremur slaka í Þjóðviljanum. Vikivaki fylgdi útgáfu plötunnar á Íslandi með nokkurra vikna tónleikaferðalagi sumarið 1977.

Sveitin fór víða um lönd á þessum árum og hitaði upp fyrir mörg stærri bönd, t.a.m. Rainbow, Dr. Hook, Black Sabbath og fleiri. Sveitin stefndi þó alltaf á Bandaríkjamarkað og fór í einhverjar tónleikaferðir þangað.

Vikivaki virðist því hafa notið nokkurrar hylli um þetta leyti á alþjóða mælikvarða þótt ekki geti hún talist með stærstu eða vinsælustu sveita áratugarins, Vikivaki er þó klárlega stærsta íslenska nafnið um þetta leyti og þegar grannt er skoðað hlýtur hún að teljast stærri en t.d. Change sem herjaði á Bretlandseyjar um svipað leyti við lítinn árangur. Sú sveit varð þó mun þekktari og vinsælli hér heima.

Sveitin starfaði áfram við það sama og vann að næstu plötu sem fjölmiðlar sögðu þá fjórðu í röðinni (engar heimildir hafa hins vegar fundist um þá þriðju, sem þó hlýtur að hafa komið út skv. útgáfusamningnum við CBS). Sú plata mun hafa verið fullunnin haustið 1979 og þá hafði Vikivaki sett sér markmiðið að komast á Bandaríkjamarkað.

Íslenskir fjölmiðlar sögðu frá því 1979 að þá væru þeir aðeins eftir þrír bræðurnir í sveitinni, það sumar kom út tveggja laga smáskífa í Svíþjóð sem gæti verið af nýju plötunni en ekki er þó ljóst hvort platan kom út meðan sveitin hét enn Vikivaki því árið eftir (1980) hafði hún breytt um nafn fyrir fyrirhugað Bandaríkjaævintýri og kallaði sig nú Iceland. Sveitin var þá skipuð þeim bræðrum, Hans, Gunnari og Birni (sem hafði tekið sæti Jóns skv. íslenskum miðlum), auk Svíans Anders Olson sem lék á bassa.

Þar með lýkur langri og merkilegri sögu hinnar íslensk-sænsku hljómsveitar undir nafninu Vikivaki en hún starfaði áfram í Bandaríkjunum í fjölmörg ár undir hinu nýja nafni, Iceland. Allar upplýsingar um þessa huldusveit sem naut eftir því sem best verður að komist, heilmikillar velgengni, eru vel þegnar.

Efni á plötum

Sjá einnig Iceland [1]