Iceland [1] (1980-94)

Iceland[1]1

Iceland

Íslensk-sænskættaða hljómsveitin Iceland starfaði líklega að mestu leyti í Bandaríkjunum á níunda áratug 20. aldar. Hún hét áður Vikivaki og hafði þá verið til frá 1966 í ýmsum myndum en 1980 breytti hún um nafn og kallaði sig Iceland upp frá því.

Uppistaðan í sveitinni voru íslenskir bræður sem höfðu starfað í Svíþjóð frá unga aldri, Jón, Gunnar og Hans Magnússynir en einnig var fjórði bróðirinn Björn mikið viðloðandi sveitina. Anders Olson var fjórði meðlimur Iceland en hann spilaði á bassa. Jón lék á trommur og líklega spiluðu þeir Gunnar og Hans á flest önnur hljóðfæri, þó mest gítara. Þeir sungu ennfremur.

Iceland gaf út fjölmargar smáskífur á árunum 1980-88 en heimildir og upplýsingar um hljómsveitina og útgáfusögu hennar eru mjög stopular enda er leitarorðið Iceland e.t.v. ekki það auðveldasta að leita eftir á víðáttum vef- og fjölmiðla. Ein smáskífa sveitarinnar, Breaking the ice / Chicago barst til Íslands 1982 en hlaut fremur neikvæða umfjöllun í Morgunblaðinu.

Tvær breiðskífur munu hafa komið út með Iceland, On the rocks, sem kom út 1980 og Breaking the ice 1982, síðarnefnda platan kom út með tvenns konar umslagi. Breiðskífurnar tvær komu út í Svíþjóð en var líklega dreift í Bandaríkjunum.

Það síðasta sem finnst um Iceland er að hún gaf út smáskífu 1994, sveitin kom til Íslands 1988 og hafði þá verið á Evróputúr en bassaleikari að nafni Johan Strömberg lék þá með sveitinni. Iceland gæti þá hafa starfað um tíma sem tríó þeirra bræðra undir lokin en þeim bæst liðsauki fyrir þennan túr.

Efni á plötum

Sjá einnig Vikivaki [1]