Leikbræður (1945-55)

Leikbræður4

Leikbræður 1952, frá vinstri Gunnar, Ástvaldur, Torfi og Friðjón.

Söngkvartettinn Leikbræður (1945-1955) átti að mestu rætur sínar að rekja til Dalasýslu en þrír fjórðu hans voru Dalamenn, þeir Friðjón Þórðarson (síðar alþingismaður og ráðherra), bræðurnir Torfi Magnússon og Ástvaldur Magnússon (faðir Þorgeirs Ástvaldssonar) en sá fjórði, Gunnar Einarsson var Reykvíkingur.
Leikbræður voru í raun stofnaðir 1945 en voru ekki áberandi í upphafi enda sungu þeir fremur stopult þessi fyrstu misseri, þeir komu stundum fram undir nafninu Fjórir Breiðfirðingar.

Þegar kvartettinn hafði starfað í um fjögur ár fóru þeir að vekja almenna athygli, þar munaði mest um söng þeirra á héraðsmótum víðs vegar um land sumarið 1949.

Það var þó ekki fyrr en haustið 1952 sem þeir héldu sjálfir tónleika en fram að því höfðu þeir aðeins verið skemmtiatriði á stærri samkomum, á þeim tónleikum sem haldnir voru í Gamla bíói slógu Leikbræður í gegn og nutu í kjölfarið mikilla vinsælda.

Leikbræður fóru að koma fram í útvarpinu og 1954 kom út tveggja laga plata með kvartettnum við undirleik Tríós Magnúsar Péturssonar, en hún var tekin upp í Ríkisútvarpinu. Venjulega var þó Gunnar Sigurgeirsson undirleikari þeirra, og stundum reyndar Carl Billich en sá síðarnefndi raddsetti flest lög þeirra og var þeim reyndar innan handar sem leiðbeinandi og ráðgjafi alla tíð.

Þremur árum síðar (1957) kom út önnur tveggja laga plata en þessar tvær fyrstu plötur voru 78 snúninga, 1959 kom síðan þriðja platan, hún var fjögurra laga (og 45 snúninga) og innihélt m.a. lagið Hanna litla en það var að líkindum vinsælasta lag Leikbræðra. Þær upptökur eru frá 1954 þótt þær kæmu ekki út fyrr en fimm árum síðar, Carl Billich er undirleikari á þeirri plötu.

Leikbræður störfuðu í tíu ár við vinsældir sem minntu um skeið helst á MA-kvartettinn, þeir hættu að koma fram 1955 þegar Friðjón tók við sýslumannsembætti í Dalasýslu. En þeir voru síður en svo gleymdir því 1977, tuttugu og fimm árum eftir tónleikana í Gamla bíói, gáfu Íslenzkir tónar út fjórtán laga plötu samnefnda kvartettnum en hún hafði að geyma þau átta lög sem áður höfðu komið út og sjö lög að auki sem Helgi Einarsson hafði tekið upp á segulband á æfingu kvartettsins. Sú plata hefur þrívegis verið endurútgefin síðan, fyrst 1994 (þá líklega eingöngu á snælduformi) og síðan tveimur árum síðan á geislaplötuformi.

1990 kom út nótnabókin Söngbræðralög sem innihélt fjörtíu lög með útsetningum Carls Billich fyrir kvartett og píanó en Leikbræður stóðu sjálfir að útgáfu hennar. 2005 voru þeir félagar síðan heiðraðir á Jörfagleði Dalamanna fyrir framlag sitt til tónlistarinnar.

Þegar 70 ár voru liðin frá stofnun Leikbræðra, 2015, gáfu afkomendur þeirra út lögin á ný, en nú var bætt við sjö lögum úr safni Ríkisútvarpsins sem ekki höfðu komið út áður. Þeirra á meðal eru tveir dúettar tenóranna Gunnars og Ástvaldar.

Lög þeirra Leikbræðra hafa komið út á safnplötum eins og Bestu lög 6. áratugarins (1976), Þrjátíu vinsæl lög frá 1950-60 (1977), Stóra bílakassettan I (1979), Stóra bílakassettan VII (1980), Aftur til fortíðar 50-60 III (1990), Söngvasjóður (1993), Strákarnir okkar (1994) og Óskastundin (2002). Kvartettinn er því langt frá því gleymdur og reglulega heyrast lög með þeim Leikbræðrum leikin í útvarpi.

Efni á plötum