Björn Kristjánsson (1858-1939)

Björn Kristjánsson

Björn Kristjánsson var öllu þekktari fyrir störf sín sem bankastjóri, kaupmaður, alþingismaður og ráðherra en sem tónlistarmaður, hann var þó að mörgu leyti í fararbroddi við útbreiðslu tónlistarmenntunar og -útbreiðslu hér á landi.

Björn fæddist í Flóanum 1858, hann vann hefðbundin störf sem unglingur s.s. við sjómennsku og bústörf en barðist úr fátækt til æðstu metorða sem varð þó um leið ástæða þess að hann helgaði sig ekki tónlistinni.

Hann nam skósmíði og starfaði við þá iðn sína m.a. á Ísafirði þar sem hann stofnaði söngfélag en hann hafði þá lítillega kynnst tónlistinni á sunnanverðu landinu, hafði numið tónfræði af Þorsteini Eiríkssyni. Hann fór síðan tvívegis til Kaupmannahafnar og menntaði sig fremur í tónfræði og um leið lærði hann á orgel, en í millitíðinni starfaði hann á Akureyri og stjórnaði m.a. Kirkjukór Akureyrarkirkju þar í bæ. Hann starfaði þar einnig sem organisti auk þess að kenna söng við kvennaskóla sem var á Laugalandi í Eyjafirði. Þetta var í kringum 1880. Þá mun Björn hafa gefið út kennslubók í tónfræði (Stafróf söngfræðinnar), að öllum líkindum þá fyrstu sinnar tegundar hér á landi. Hann mun einnig hafa samið nokkur lög en fá þeirra hafa verið varðveitt.

Eftir síðari Kaupmannahafnardvöl Björns gerðist hann verslunarmaður í Reykjavík, stofnaði þar reyndar söngfélag ásamt Steingrími Johnsen, sem starfaði um þriggja ára skeið (hugsanlega innan Latínuskólans þar sem Steingrímur starfaði) og æfði í Dómkirkjunni en það félag (kór) mun hafa staðið að einhvers konar tónleikahaldi.

Segja má að þar með hafi tónlistin þurft að víkja fyrir öðrum störfum en kaupmennskan varð tónlistinni yfirsterkari og þegar Björn tók við starfi bæjargjaldkera í Reykjavík og síðan bankastjórastarfi í Landsbankanum ásamt alþingisstörfum og ráðherraembætti (í fjármálaráðuneytinu) var ljóst að aðrir hlutir hefðu tekið við.

Björn lést við upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari haustið 1939 en hann var þá kominn á níræðis aldur.