Bláa stjarnan [annað] (1948-52)

Logo Bláu stjörnunnar

Bláa stjarnan var yfirskrift revíu- og kabarettshóps sem starfaði á árunum 1948 til 52 og naut mikilla vinsælda.

Þeir félagar, Haraldur Á. Sigurðsson, Alfreð Andrésson, Indriði Waage og Emil Thoroddsen höfðu starfrækt um tíma revíuhópinn Fjalarköttinn og má segja að Bláa stjarnan hafi hálfvegis tekið við af þeim hópi. Tómas Guðmundsson skáld kom í stað Emils en hann lést 1944, og voru fjórmenningarnir stjórnendur og höfundar revíanna. Haraldur gegndi ennfremur hlutverki kynnis á sýningunum sem báru mismunandi heiti s.s. Blandaðir ávextir, Glatt á hjalla, Vorið er komið, Þótt fyrr hefði verið og Fagurt er rökkrið.

Hver sýning, sem samanstóð af stuttum leikþáttum, grínatriðum, eftirhermum og dansi í bland við tónlist, gekk í nokkrar vikur og var síðan endurnýjuð, sýnt var tvisvar í viku og var reynst eftir fremsta megni að hafa aðganginn sem ódýrastan en revíurnar nutu mikilla vinsælda. Sýningar fóru fram í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (síðar Sigtúni og enn síðar NASA) og að þeim loknum fór fram dansleikur og lék Hljómsveit Aage Lorange yfirleitt fyrir dansi sem og á skemmtunum sjálfum, yfirleitt sex manna sveit.

Söngatriði úr sýningu Bláu stjörnunnar

Fjölmargir listamenn komu að Bláu stjörnunni og voru leikarar og tónlistarfólk misþekkt eins og gengur og gerist, en meðal þekktra tónlistarmanna voru t.d. söngvararnir Soffía Karlsdóttir, Guðmundur Jónsson, Haukur Morthens, Steinunn Bjarnadóttir (Steinka Bjarna) og Sigurður Ólafsson í hópnum, einnig var settur saman söngflokkur sem bar heitið Bláklukkur.

Fyrst um sinn voru eingöngu Íslendingar sem komu að Bláu stjörnunni en síðar komu einnig erlendir skemmtikraftar við sögu, danska söngkonan Lulu Ziegler var þeirra á meðal en einnig má nefna indverskan fakír sem sýndi listir sínar. Revíusýningarnar þróuðust síðan á þann veg að þær mynduðu heild, fengu rauðan þráð eða þema í stað þess að innihalda efni úr ólíkum áttum. Þá voru haldnar fegurðarsamkeppnir samhliða sýningunum.

Bláa stjarnan starfaði til ársloka 1952 en þá hafði starfsemin verið með hléum síðustu mánuðina.