
Birgir Marinósson
Afmælisbörn Glatkistunnar eru fjögur að þessu sinni:
Jens Hansson saxófón- og hljómborðsleikari úr Sálinni hans Jóns míns er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Jens vakti fyrst athygli með Das Kapital þar sem hann lék saxófónssólóið í laginu Blindsker en síðar lék hann með hljómsveitum eins og Faraldi, Strákunum, Lost, Klakabandinu, Fínt fyrir þennan pening, Partýtertunni, Zebra og Jemma & Klanks svo dæmi séu tekin. Hann hefur sem fyrr segir verið hluti af Sálinni til fjölda ára en hann hefur jafnframt samið nokkur þekkt lög með sveitinni, þar má nefna Ekkert breytir því, Gagntekinn og Upp‘í skýjunum. Jens hefur einnig starfað við hljóðupptökur.
Birgir Marinósson er sjötíu og níu ára gamall á þessum degi. Birgir starfrækti hljómsveitir hér fyrrum og var einnig í öðrum sveitum en hann var e.t.v. þekktastur sem laga- og textahöfundur og samdi m.a. lagið Glókollur sem Póló og Bjarki gerðu vinsælt. Þá samdi hann texta fyrir Helenu Eyjólfsdóttur, Björgvin Halldórsson, Erlu Stefánsdóttur, Hörpu Gunnarsdóttur og fleiri.
Jón Hjörleifur Jónsson tenórsöngvari er níutíu og fimm ára. Þótt Jón hafi gegnt ýmsum tónlistartengdum störfum í gegnum tíðina, t.d. sem stjórnandi Karlakórs Akureyrar og Kirkjukórs Hveragerðis og Kotstrandarsókna þá var hann orðinn áttræður þegar út kom plata með söng hans en það voru vinir og fyrrverandi nemendur sem stóðu að þeirri útgáfu. Á þeirri plötu, sem hét Í bjarma trúar, söng Jón við undirleik Sólveigar Árnadóttur eiginkonu sinnar.
Flosi (Gunnlaugur) Ólafsson leikari (1929-2009) hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann kom með ýmsum hætti að tónlist. Hæst reis frægðarsól hans í tónlistarsögunni þegar hann söng inn á og gaf út tveggja laga plötu með hljómsveitinni Pops árið 1970 með lögunum Það er svo geggjað að geta hneggjað og Ó, ljúfa líf sem bæði hafa orðið sígild fyrir löngu. Starfs síns vegna söng Flosi ennfremur á fjölmörgum plötum s.s. með tónlist úr leikritunum Gauragangi, Gosa og Síglöðum söngvum. Flestir muna hann einnig úr Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu þar sem hann kyrjaði: „Takið af ykkur skóna“.