
Gunnþór Sigurðsson
Í dag eru afmælisbörn á skrá Glatkistunnar sex talsins:
Troels Bendtsen er sjötíu og fimm ára í dag. Troels var einkum þekktur fyrir framlag sitt í Savanna tríóinu og Þremur á palli en báðar sveitirnar nutu vinsælda á sjöunda áratugnum, síðarnefnda sveitin starfaði einkum í nánu samstarfi við Jónas Árnason og leikhúsið en allir þekkja lög með sveitunum.
Bergur Ebbi Benediktsson tónlistarmaður, uppistandari, rithöfundur og lögfræðingur er þrjátíu og sjö ára gamall. Hann var söngvari og gítarleikari í Sprengjuhöllinni sem margir muna eftir frá því um fyrir nokkrum árum síðan. Sú sveit gaf út tvær plötur sem nutu báðar vinsælda.
Viktor Orri Árnason fiðlu- og bassaleikari er þrjátíu og eins árs gamall í dag. Viktor Orri vakti fyrst athygli með Búdrýgindum sem sigraði Músíktilraunir árið 2002 en hann var þá á fimmtánda ári. Síðar var hann í hljómsveitinni Hjaltalín sem enn er starfandi, og hefur aukinheldur starfað með ýmsum tónlistarmönnum og hljómsveitum.
Gunnþór Sigurðsson bassaleikari er fimmtíu og átta ára gamall á þessum degi. Gunnþór er af miklum söngvaraættum en hefur lítið haft sig frammi sem söngvari, hann fór hins vegar mikinn sem bassaleikari á pönktímabilinu um og upp úr 1980 og lék þá með sveitum eins og Q4U og Baðvörðunum en síðar í böndum eins og Most, Vin K, Bulldosers og Dýrið gengu laust.
Hannes Jón Hannesson söngvari og gítarleikari er sjötugur en hann kom víða við á sínum tónlistarferli og var hvað mest áberandi á áttunda áratug síðustu aldar. Eftir Hannes Jón liggja tvær breiðskífur og ein afar umdeild smáskífa (sem kom út 1971) en hann var jafnframt í sveitum eins og Brimkló, Experiment, Fiðrildum, Næturgölum, Sólskini og Hálfu í hvoru. Hann hefur einnig leikið inn á nokkrar plötur og má þar t.d nefna plötu Smjattpattanna frá 1984.
Jón Halldórsson kórstjórnandi hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann lést 1984. Jón (f. 1889) var kunnastur fyrir að stjórna Karlakór K.F.U.M. (síðar Fóstbræðrum) en þeim kór stjórnaði hann í þrjátíu og fjögur ár. Jón stjórnaði líka Landskórinu sem sett var á fót fyrir Alþingishátíðina 1930 auk fleiri kóra en hann söng einnig sjálfur í nokkrum kórum og söngfélögum.