Jón Halldórsson (1889-1984)

Jón Halldórsson KFUM

Jón Halldórsson

Jón Halldórsson er einn þekktasti kórstjórnandi íslenskrar karlakórasögu.

Jón fæddist haustið 1889 í Reykjavík, hann var af miklum tónlistarættum og var t.d. Pétur Guðjohnsen (fyrsti kórstjórnandinn á Íslandi og organisti Dómkirkjunnar) afi hans.

Ekki liggur fyrir hvort söngáhugi Jóns kom snemma en hitt er vitað að hann farinn að syngja í söngkvartettnum Fóstbræðrum sem starfaði á árunum 1905-14 en stofnárið var Jón aðeins sextán ára. Hann var einnig í karlakórnum 17. júní sem starfaði örlítið síðar, og þótti ágætur söngmaður.

Það var síðan 1916 sem hann var fenginn tuttugu og sjö ára gamall til að stjórna nýstofnuðum kór, Karlakór KFUM sem hann samþykkti til eins árs. Árið eina varð hins vegar að fjörutíu og fjórum en Jón stýrði kórnum í gegnum nafnabreytingu (nafni hans var breytt í Karlakórinn Fóstbræður 1937) og allt til ársins 1950.

Á þeim áratugum stýrði Jón kórnum í gegnum ýmis þróunar- og átakaskeið, kreppa, styrjaldir, framfarir í upptökufræðum og ýmislegt annað voru hlutir sem hann þurfti að vinna með, kórinn söng til að mynda undir hans stjórn á um tíu plötum í tengslum við Alþingishátíðina 1930.

Og tengsl Jón við Alþingishátíðina urðu meiri, hann var annar stjórnenda Landskórsins sem settur var saman við þetta sama tækifæri, og var síðan sæmdu heiðursmerki hátíðarinnar.

Jón hlaut fleirir viðurkenningar fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, hann var gerður að heiðursfélaga að minnsta kosti tveggja norrænna karlakóra þegar Fóstbræður voru á söngferðalögum erlendis og einnig hlaut hann þann heiðurstitil hjá Karlakórnum Geysi á Akureyri en Geysir og Fóstbræður höfðu farið saman til Bandaríkjanna eftir stríðslok undir heitinu Kór Sambands íslenskra karlakóra, Jón hafði komið að stofnun Sambands íslenskra karlakóra (SÍK) og gegndi þar formennsku um tíma. Hann hlaut ennfremur gullmerki Fóstbræðra, auk riddarakross fyrir framlag sitt.

Jón hafði verið mikill íþróttamaður og varð fyrstur Íslendinga til að keppa í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikum (1912). Aðalstörf hans urðu þó tengt fjármálum, hann var landsféhirðir og síðar skrifstofustjóri Landsbanka Íslands en kórstjórnunin var alltaf fyrst og fremst áhugamál.

Jón Halldórsson lést sumarið 1984 en hann var þá á nítugasta og fimmta aldursári.