Bossanova (1990-97)

Bossanova

Bossanova (einnig nefnd Bossanova-bandið) var hljómsveit skipuð ungum tónlistarmönnum af Seltjarnarnesi og vakti verðskuldaða athygli er hún starfaði á síðasta áratug 20. aldarinnar.

Bossanova var stofnuð um áramótin 1990-91 innan Tónlistarskólans á Seltjarnarnesi og var skipuð meðlimum sem þá voru á aldrinum átta til tólf ára gamlir. Sveitin vakti fljótlega mikla athygli utan skólans og voru þeir félagar fengnir til að troða upp við ýmsar tónlistartengdar uppákomur, m.a. á RÚREK-djasshátíðinni, sem upphitunarband fyrir landsleik í fótbolta og í þætti Hermanns Gunnarssonar í Ríkissjónvarpinu, Á tali með Hemma Gunn svo nokkur dæmi séu nefnd. Þá fór sveitin í þrígang út fyrir landsteinana til að leika, t.a.m. á norrænu tónlistarkennaraþingi sem haldið var í Finnlandi.

Meðlimir Bossanova voru þeir Kjartan Hákonarson trompetleikari, Birkir Friðfinnsson gítarleikari, Kristinn Ottason gítarleikari, Ellert Guðjónsson bassaleikari, Þorbjörn Sigurðsson hljómborðsleikari, Þorvaldur Þór Þorvaldsson trommuleikari, Helgi Hrafn Jónsson básúnuleikari og Jón Grétar Gissurarson saxófónleikari. Stjórnandi sveitarinnar var Kári Einarsson en hann annaðist einnig útsetningar ásamt Gylfa Gunnarssyni.

Bossanova 1997

Árið 1996 sendi Bossanova frá sér plötuna [laiv] en á henni var að finna sextán lög tekin upp að mestu í hljóðveri FÍH. Á [laiv] voru m.a. lög eftir Lárus Grímsson og Ríkarð Örn Pálsson sem sveitin hafði flutt á tónleikum en mestmegnis var um að ræða þekkta standarda. Platan fékk góðar viðtökur og seldist í á annað þúsund eintaka, hún hlaut ennfremur góða dóma í Morgunblaðinu og DV en sveitin hélt útgáfutónleika á Eiðistorgi – líklega þá einu sinnar tegundar sem haldnir hafa verið þar.

Sveitin var starfandi allt til vorsins 1997 en þá voru þeir flestir að útskrifast, þeir komu þó saman aftur um haustið og léku þá á þrjátíu ára afmæli tónlistarskólans.

Meðlimir Bossanova hafa flestir haldið áfram í tónlistinni og hafa t.d. tveir þeirra, Helgi Hrafn Jónsson og Þorvaldur Þór Þorvaldsson sent frá sér sólóplötur, þá hafa þeir Kjartan Hákonarson og Þorbjörn Sigurðsson leikið með ófáum hljómsveitum og inn á aragrúa hljómplatna.

Efni á plötum