Botnleðja (1994-)

Botnleðja sigurvegarar Músíktilrauna 1995

Botnleðja er vafalaust með merkustu rokksveitum íslenskrar tónlistarsögu, sveitinni skaut hratt á stjörnuhimininn þegar hún sigraði Músíktilraunir og á eftir fylgdu draumar um meik í útlöndum og nokkrar plötur sem hlutu frábæra dóma og viðurkenningar.

Haraldur Freyr Gíslason trommuleikari, Heiðar Örn Kristjánsson söngvari og gítarleikari og Ragnar Páll Steinsson bassaleikari, stofnuðu sveitina síðla árs 1994 í Hafnarfirði en þremenningarnir höfðu þá starfað saman og í sitt hverju lagi í ýmsum hljómsveitum. Þeir Haraldur og Ragnar voru æskufélagar en kynntust Heiðari í Flensborgarskólanum og hófu fljótlega upp frá því að spila saman.

Það liðu ekki margir mánuðir uns þremenningarnir höfðu skráð sig til leiks í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1995 og þar stefndu þeir strax á ekkert minna en sigur. Það hafðist strax í fyrstu tilraun og skutu aftur fyrir sig sveitum eins og Stolíu sem varð í öðru sæti og 200.000 naglbíta sem þurftu að sætta sig við þriðja sætið.

Þar með var tónninn sleginn með hráu og pönkskotnu nýbylgjurokki sem féll vel í kramið hjá áhorfendum og dómnefnd. Tríóið var ekkert að tvínóna við hlutina og hóf að leika á tónleikum strax í kjölfarið, m.a. á Rykkrokk-hátíðinni og Óháðu listahátíðinni, og var þegar orðin nokkuð þekkt um sumarið þegar þeir fóru í hljóðver til að nýta þá þrjátíu og fimm stúdíótíma sem þeir fengu í verðlaun fyrir sigurinn. Reyndar voru þeir Botnleðjumenn ekkert að nýta alla tímana heldur dugðu þeim tuttugu og fimm tímar til að skila af sér tólf laga plötu, Drullumall, sem kom út í nóvember á vegum Ryms, útgáfufyrirtækis Rafns Jónssonar.

Þá strax um haustið 1995 höfðu þeir skapað sér nægilega stórt nafn til að hita upp fyrir bresku sveitina Ash sem hingað kom til tónleikahalds. Og það var langt frá því eina erlenda hljómsveitin sem Botnleðja hitaði upp fyrir.

Botnleðja

Drullumall var sem fyrr segir tekin upp og unnin hratt, og tónlistin bar þess einnig merki, hrátt og hratt ungæðislegt rokk sem sló samstundis í gegn og sérstaklega vöktu lögin Þið eruð frábær og Heima er best, athygli. Platan fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu en upplagið barst seint til landsins og var talað um að platafn hefði selst mun betur ef hún hefði borist fyrr. Á annað þúsund eintaka seldust þó af plötunni fyrir jólin.

Botnleðja fylgdi plötunni heilmikið eftir með spilamennsku, m.a. hélt sveitin tónleika um jólin 1995 ásamt Kolrössu krókríðandi sem hafði sigrað Músíktilraunirnar 1992, þetta var upphafið af heilmiklu samstarfi og samneyti sveitanna tveggja.

Árið 1996 hófst af sama krafti og sveitin spilaði á fullu, á Íslensku tónlistarverðlaunum var Botnleðja kjörin „bjartasta vonin“ og í beinu framhaldi af því hófst röð upphitunargigga hjá sveitinni, um vorið byrjaði sveitin að hita upp fyrir Prodigy, þá um svipað leyti fyrir finnsku sveitina Brussel Kaupallinen og síðan hina hollensku Bobwire áður þeir félagar hituðu upp fyrir Pulp í Laugardalshöll um sumarið. Botnleðja lék ekki einvörðungu á tónleikum heldur einnig á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og sveitaböllum m.a. í Njálsbúð, reyndar ásamt nokkrum öðrum sveitum (SSSól, Spoon o.fl.) sem í sameiningu gáfu út safnplötuna Súper 5 um sumarið en á þeirri plötu átti sveitin þrjú lög. Eitt þeirra laga (Í stuði) fluttu Botnleðju-liðar ásamt tveimur dagskrárgerðarmönnum á X-inu sem kölluðust Simmi San (Sigmar Guðmundsson) og Þossi San (Þorsteinn Hreggviðsson), báðir kunnir fjölmiðlamenn í dag. Á útgáfutónleikum fyrir Súper 5 var Damon Albarn aðalsprauta bresku hljómsveitarinnar Blur viðstaddur og hreifst nógu mikið til af sveitinni til að óska eftir að hún hitaði upp fyrir Blur um haustið sem og þeir gerðu, sem og fyrir Super furry animals. Það var því ekki tilviljun að Botnleðja gekk nú undir heitinu upphitunarhljómsveit Íslands.

Þarna um haustið 1996 spurðist út að ný plata væri væntanleg frá sveitinni, upptökuferlið tók þó miklu lengri tíma en við fyrstu plötuna enda hafði tónlistin líka þróast og fágast nokkuð frá hráa rokkinu sem einkenndi Drullumall. Platan var tekin upp í Hljóðhamri undir stjórn Rafn Jónssonar sem einnig gaf plötuna út eins og hina fyrri.

Nýja platan kom út fyrir jólin undir titlinum Fólk er fífl og sló samstundis í gegn, einkum lagið Hausverkun en í því komu blásarar við sögu sem sýnir einna helst hvernig tónlistin hafði þróast en rokkið var þó ekkert á undanhaldi. Um það leyti sem platan var að koma út upplýstu þeir félagar í blaðaviðtali að sveitin ætlaði að reyna fyrir sér erlendis og stefndi á að flytja til Bretlands í þeim tilgangi, því myndu þeir taka upp nafnið Silt sem er bein þýðing á íslenska heiti sveitarinnar. Þeir væru ennfremur að snara lögum sínum yfir á ensku af sama tilefni.

Fólk er fífl fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Degi, aðeins gagnrýnandi DV var á öndverðum meiði og fékk breiðskífan slaka dóma þar. Í ársuppgjöri fjölmiðla skoruðu sveitin og platan hátt og t.a.m. var lagið Hausverkun kjörið lag ársins hjá Tónlistartíðindum Músík og mynda sem og platan plata ársins hjá sama miðli, þá varð platan í öðru sæti í uppgjöri Dags og í þriðja sæti hjá Morgunblaðinu. Fólk er fífl seldist í um þrjú þúsund eintökum fyrir jólin en hefur selst í um 4500 eintökum í það heila síðan.

Botnleðja 1996

Á Íslensku tónlistarverðlaununum fljótlega á nýju ári (1997) var sveitin tilnefnd til fimm verðlauna, sem plata ársins, flytjandi ársins og lag ársins (Hausverkun), auk þess sem þeir Ragnar og Haraldur voru tilnefndir sem bassa- og trommuleikari ársins.  Botnleðja vann svo til verðlauna fyrir fyrstu þrjú ofangreindra.

Um það leyti sem platan kom út bauð Blur Botnleðju / Silt með sér í tónleikaferð um Bretland seinni partinn í janúar og rímaði það ágætlega við fyrirætlanir sveitarinnar um útrásartilraunir og þáðu þeir boðið. Með í þessari för voru Hafsteinn Ingimundarson og Þorgeir Guðmundsson sem kvikmynduðu túrinn og gerðu síðan heimildamynd um hann, sem var sýnd í Ríkissjónvarpinu sumarið 1997.

Margir hafa síðan vilja tengja lagið Song 2, sem Blur sendi frá sér ári síðar, við lagið Hausverkun af plötunni Fólk er fífl og vilja meina að það sé samið undir áhrifum Botnleðjuslagarans. Þremenningarnir hafa þó alltaf gert lítið úr þessu og sagt að fleiri hafi notað „woo-hoo“ í lögum sínum en í því hrópi lágu líkindi laganna tveggja.

Ekki varð úr að Botnleðja flyttist til Bretlands að sinni og starfaði sveitin mestmegnis hér heima, um vorið hitaði hún upp fyrir Skunk anansie og bætti þannig enn einni sveitinni í safnið en um sumarið lék hún víða hér heima á tónleikum og jafnvel sveitaböllum. Þá gáfu Botnleðja og rappsveitin Quarashi sameiginlega út lag sem kom út á plötu með tónlist úr kvikmyndinni Blossi 810551.

Botnleðja kom reyndar víðar út á plötum þetta árið, lag með sveitinni var að finna á plötunni Rokkstokk 97 sem að öðru leyti hafði að geyma tónlist úr samnefndri hljómsveitakeppni, en einnig var tríóið á meðal sveita sem heiðruðu Megas á plötunni Megasarlög – með lagið Reykjavíkurnætur.

Engin plata kom út árið 1997 með sveitinni en í febrúar 1998 kynntu þeir félagar nýtt efni til sögunnar á Gauki á Stöng. Tilefnið var tónleikaferð til Danmerkur og Bretlands sem þá stóð fyrir dyrum. Um það leyti gekk Kristinn Gunnar Blöndal hljómborðs- og gítarleikari í sveitina. Þeir voru þá byrjaðir að vinna plötu sem áætlað var að gefa út um vorið en sökum anna þurfti að fresta þeirri vinnu.

Um sumarið 1998 lék Botnleðja á tónlistarhátíðinni Popp í Reykjavík en samnefnd kvikmynd var unnin upp úr henni sem og plata sem sveitin kom við sögu á. Í júní fór sveitin í þriggja vikna tónleikaferð til Kaliforníu í Bandaríkjunum og var ætlunin að komast í sambönd við og funda með þarlendum plötuútgefendum í leiðinni. Sá túr byrjaði reyndar ekki með neinum glans því þeim Haraldi og Ragnari var vísað úr landi við komuna til Bandaríkjanna þar sem þeir höfðu í fórum sínum sína hvora svefntöfluna af tegund sem var bönnuð í Bandaríkjunum, en þeir höfðu ætlað þær til notkunar á löngu flugi sínu vestur um haf en ekki orðið úr. Fyrir tilstuðlan bandaríska sendiherrans á Íslandi fengu þeir endurnýjaða áritun til landsins á mettíma og voru komnir til félaga sinna tveimur dögum síðar en höfðu þurft að greiða þó nokkuð háa sekt fyrir „lyfjasmyglið“. Að öðru leyti gekk túrinn ágætlega þótt hann skilaði ekki neinu nýju  fyrir sveitina.

Botnleðja

Nýja platan var unnin og kláruð í október 1998 eða um svipað leyti og Popp í Reykjavík var frumsýnd en í þeirri kvikmynd vakti framlag Botnleðju einna mesta athygli. Mánuði síðar kom platan Magnyl út og var útgáfu hennar fagnað með útgáfutónleikum í Loftkastalanum, yfirleitt er talað um hana sem bestu plötu sveitarinnar. Tónlistin skiptist nokkuð í tvennt á henni og voru þeir félagar að stíga þróunarskrefið til postrokks en fyrir vikið þótti sveitin nokkuð þyngri áheyrnar. Sumum þótti t.d. kveða við nýjan tón í strengjakafla útsettum af Ólafi Gauki Þórhallssyni í einu laganna.

Magnyl hafði verið tekin upp í Hljóðhamri af Hrannari Ingimarssyni og Ívari Bongó undir stjórn Rafns Jónssonar en hljóðblönduð af Ken Thomas. Platan fékk frábæra dóma í Fókus og Morgunblaðinu og ágæta einnig í Degi. Og þegar árið var gert upp á Íslensku tónlistarverðlaunum eftir áramótin 1998-99 vann sveitin titlana Plata ársins og Flytjandi ársins en auk þess hafði Ragnar verið tilnefndur sem bassaleikari ársins. Í sameiginlegu uppgjöri dagblaðanna í Fókus var Magnyl kjörin plata ársins og einnig í ársuppgjöri Morgunblaðsins. Þrátt fyrir þetta viðurkenninga- og verðlaunamagn seldist platan einungis í um tvö þúsund eintökum sem voru nokkur vonbrigði.

Þess má geta að Botnleðja kom lítillega við sögu á plötu dúettsins Súkkat, Ull sem kom út fyrir jólin 1998.

Botnleðja starfaði nokkuð erlendis árið 1999. Sem fyrr segir unnu Botnleðja og Kolrassa krókríðandi nokkuð saman á þessum tíma en Heiðar og Elísa Geirsdóttir söngkona síðarnefndu sveitarinnar voru þá par, Kristinn Gunnar nýi meðlimur sveitarinnar var aukinheldur kærasti Sigrúnar Eiríksdóttur gítarleikara sömu sveitar. Botnleðja og Kolrassa komu því oft fram saman á tónleikum og jafnvel saman undir nafninu Botnrassa. Kolrassa var þarna um vorið 1999 að flytja tímabundið til London til að sinna sínum meikdraumum og úr varð að þeir Heiðar og Kristinn fylgdu unnustum sínum til Bretlands til að vinna jarðveginn fyrir Botnleðju þar í landi. Sú vinna skilaði sér í útgáfu þriggja laga smáskífunnar Something new sem kom út í Bretlandi en á henni var m.a. að finna lagið Ég drukkna hér (Something new) af Magnyl. Sveitin lék um haustið ennfremur á Reading tónlistarhátíðinni í Bretlandi eða um það leyti sem smáskífan kom út þar í landi.

Þetta sama haust sendi Bubbi Morthens frá sér tvöföldu safnplötuna Sögur 1980 – 1990 en með henni fylgdi fimm laga aukaplatan Mér líkar það, á henni léku hljómsveitirnar Botnleðja og Ensími með Bubba – þar af Botnleðja í þremur laganna. Lögin höfðu verið tekin upp um sumarið, en annað kom ekki út með hljómsveitinni árið 1999.

Kvartettinn Botnleðja

Um veturinn var Botnleðja mikið erlendis, sveitin fór t.a.m. í sex vikna túr um Bretland um haustið og spilaði í Hollandi eftir áramótin 1999-2000. Reyndar hafði verið ólga innan sveitarinnar milli þeirra Haraldar og Kristins sem endaði með því að sá síðarnefndi hætti í henni rétt fyrir jólin 1999. Birgir Örn Steinarsson (Biggi í Maus) leysti Kristin af í Hollandstúrnum en sú afleysing var aldrei hugsuð nema til skamms tíma.

Sveitin var því aftur orðin að tríói og þannig skipuð hóf það að vinna að nýju efni í febrúar 2000. Leit stóð þó að fjórða manni til að fylla skarð Kristins en tíminn var naumur þar sem enn einn Bretlands túrinn stóð fyrir dyrum í mars, Andri Freyr Viðarsson gítarleikari (þá títtnefndur Freysi á X-inu og síðar dagskrárgerðarmaður hjá RÚV) varð sá sem leysti Kristin af Hólmi og fór með sveitinni utan en hann hafði þá verið gítarleikari Bisundar, Magnyl (á íslensku) var þá að koma út í Bretlandi um það leyti, og líklega einnig í Skandinavíu.

Meira fór að bera á Botnleðju hér heima eftir Bretlandstúrinn og m.a. kom sveitin fram á tónlistarhátíðinni Reykjavik music festival sem haldin var í Laugardalnum, þeir félagar skruppu einnig til Finnlands um sumarið og spiluðu þar.

Snemma um haustið héldu þremenningarnir Haraldur, Heiðar og Ragnar til Cornwall í Englandi til að taka upp nýju plötuna sem þeir höfðu verið að semja og vinna efni á síðan um áramótin. Andri Freyr tók ekki þátt í þeim hljóðupptökum enda var hann fyrst og fremst hugsaður sem aukamaður og til að gefa sveitinni meiri fyllingu á tónleikum. Þótt þeir félagar væru ekki komnir með útgáfusamning ytra fyrir nýju plötuna tóku þeir sönginn upp einnig á ensku enda stefndu þeir á að gefa plötuna út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Paul Narthcote Reeve tók plötuna upp með þeim

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves var haldin um haustið 2000 í annað skiptið og var sveitin meðal flytjenda á þeirri hátíð.

Þeir Botnleðju-liðar fóru þá leið í þetta skiptið að gefa plötuna út sjálfir en þeir töldu sig vera komna með nógu mikla þekkingu og reynslu eftir þrjár breiðskífur til að gera hlutina sjálfir, útgáfufyrirtækið nefndu þeir Spik. Platan kom út fyrir jólin og nefndist Douglas Dakota. Hún fékk eins og fyrri plötur sveitarinnar prýðilegar viðtökur og naut lagið Farðu í röð mikilla vinsælda, platan fékk mjög góða dóma í Fókus, ágæta í tímaritinu Undirtónum og þokkalega í Morgunblaðinu og varð síðan kjörin plata ársins hjá Fókusi og Fréttablaðinu en fyrrnefnda blaðið hafði staðið fyrir sameiginlegu ársuppgjöri álitsgjafa dagblaðanna. Platan varð jafnframt í öðru sæti uppgjörs Morgunblaðsins. Tónlistin þótti ekki lengur jafn villt, var mun rólegri og áður, og kannski var það ástæðan fyrir því að Douglas Dakota seldist ekkert sérlega vel. Reyndar varð engin plata sveitarinnar nálægt því að verða nein metsöluplata.

Botnleðja fylgdi útgáfu breiðskífunnar eftir með útgáfutónleikaröð, fyrst í Reykjavík og svo á landsbyggðinni en fljótlega eftir áramótin 2000-01 dró smám saman úr spilamennskunni og lítið fór fyrir sveitinni fram á vorið. Þá afhjúpuðu þeir stuðningsmannalag fyrir FH í Hafnarfirði en þeir Haraldur og Heiðar voru öflugir og kunnir stuðningsmenn félagsins, Ragnar ku hins vegar vera Hauka-maður. Síðar áttu þeir eftir að vera enn öflugri í þessum stuðningi sínum en þá voru þeir án Ragnars og kölluðust þá Hafnarfjarðarmafían.

Botnleðja með Andra Frey innanborðs

Um sumarið 2001 bárust þær fréttir í fjölmiðlum að samstarf væri fyrirhugað milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands annars vegar og Botnleðju og Quarashi hins vegar, sinfóníuhljómsveitin hafði þá sett sig í samband við sveitirnar með tónleikahald í huga um haustið og voru útsetjarar fengnir til að skrifa útsetningar fyrir sinfóníuna. Þetta var í fyrsta sinn sem slíkt var gert hérlendis, að rokk- og sinfóníuhljómsveitir leiddu saman hesta sína en hefur verið gert í nokkur skipti síðan. Tónleikarnir voru síðan haldnir um haustið í Háskólabíói undir yfirskriftinni B+Q+S og fengu almennt ágæta dóma en einnig kom sveitin fram á Airwaves hátíðinni um svipað leyti.

Annars hafði fremur lítið farið fyrir sveitinni um sumarið, sveitin hafði að vísu komið fram á heiðurstónleikum fyrir Rabba (Rafn Jónsson fyrrum útgefanda sveitarinnar) sem þá barðist við illvígan sjúkdóm en að öðru leyti heyrðist lítt til hennar, Botnleðja var þá aftur orðin að tríói en Andri Freyr hafði þá yfirgefið sveitina.

Samhliða verkefninu með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Quarashi vann Haraldur að sólóverkefni í formi barnaplötu en þeir Heiðar störfuðu þá báðir í leikskóla, félagar hans í sveitinni komu einnig við sögu á þeirri plötu en það telst seint til Botnleðju verkefnis fremur en Pollapönkið sem kom síðar. Plata Haraldar hlaut nafnið Hallilúja.

Botnleðja 2001

Þar sem engin plata var gefin út fyrir jólin 2001 með Botnleðju lagðist sveitin hálfvegis í kör næstu mánuðina en um vorið 2002 hófu þeir félagar að vinna að næstu plötu, semja á hana efni og undirbúa jarðveginn. Þá var þeim boðið í þriggja vikna Evróputúr ásamt bandarísku hljómsveitinni Spörtu í maí og júní, og sendi sveitin frá sér fimm laga þröngskífu, In line (Farðu í röð) til kynningar henni fyrir þann túr. Breski dreifingaraðilinn Plastichead annaðist dreifingu á plötunni sem hafði að geyma þrjú lög af Douglas Dakota á ensku og tvö ný lög sem tekin höfðu verið upp af Ríkisútvarpinu á Airwaves-hátíðinni haustið á undan. Smáskífan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Um haustið var ný plata tekin upp en beðið var fram yfir áramótin 2002-03 með að gefa hana út. Og árið 2003 byrjaði reyndar með trukki því að fljótlega eftir áramótin var tilkynnt hvaða lög myndu keppa um að verða framlag Íslands í Eurovision söngvakeppninni, Botnleðja var þar á meðal með lagið sitt Eurovísu. Eins og rétt er hægt að ímynda sér var framlag sveitarinnar nokkuð á skjön við hefðbundnar Eurovision lagasmíðar og mörgum þótti lagið passa illa inn í það form. Það breytti því þó ekki að sveitin fór inn í keppnina af fullum krafti og með það að markmiði að sigra og hræra um leið í keppninni. Það tókst nærri því og lagið hafnaði í öðru sæti á eftir Birgittu Haukdal og Segðu mér allt (Open your heart) eftir Hallgrím Óskarsson sem varð síðan framlag Íslands. Botnleðja vakti þannig nokkuð almenna athygli og eftirtekt og menn muna enn í dag þetta framlag sveitarinnar sem naut töluverðra vinsælda fyrri hluta árs 2003.

Þrátt fyrir að undankeppninni lyki í febrúar urðu nokkrir eftirmálar af henni því fljótlega eftir sigur Birgittu komst sú umræða í hámæli að sigurlag hennar væri keimlíkt slagaranum Right here waiting sem Richard Marx hafði gefið út og gert vinsælt árið 1989. Meðan vangaveltur voru um þetta mál var Botnleðja í startholunum því hefði Open your heart verið dæmt úr leik hefði sveitin tekið sæti Birgittu sem fulltrúi Íslands í Lettlandi þar sem keppnin var haldin í maí.

En nýja plata sveitarinnar kom út um vorið og var á ensku, hún bar titilinn Iceland national park og nú hafði Botnleðja farið aftur í fyrri rokkgír því platan var öllu kraftmeiri en sú síðasta á undan. Platan var tekin upp af Swell Mellah í æfingahúsnæði sveitarinnar og var gefin út af norska útgáfufyrirtækinu Trust me records bæði í Evrópu og Asíu. Það vakti athygli að sveitin notaði nú Botnleðju nafnið í stað Silt þrátt fyrir alþjóðlega útgáfu. Eurovísa var á plötunni undir titlinum Human clicktrack. Iceland national park fékk fremur jákvæða dóma í Morgunblaðinu og mjög góða í Fréttablaðinu og Fókus.

Botnleðja var því nokkuð í sviðsljósinu fyrri part ársins 2003 og reyndar fyrir einn hlut í viðbót. Aðdragandi þess var reyndar fremur neikvæður fyrir sveitina en þeir félagar voru blankir eftir útgáfu plötunnar á undan, Douglas Dakota. Sveitin hafði gefið plötuna sjálfir út en Japis séð um dreifingu á henni, skipulagsbreytingar höfðu orðið innanhúss hjá Japis og fyrir vikið átti sveitin inni nokkra fjármuni hjá fyrirtækinu sem dróst að greiða þeim. Í fjárhagsvandræðum sínum tóku þeir þá ákvörðun að leika á nokkrum skemmtunum og gefa út lag tengt Samfylkingunni í aðdraganda alþingiskosninga sem haldnar voru um vorið og þáði fyrir allverulegar upphæðir. Sveitin lék því á fjölmörgum Samfylkingarskemmtunum um land allt, notaði tækifærið og kynnti efnið af nýju plötunni og sendi einnig frá sér endurgerð af slagaranum Ég er frjáls, sem Jón Kr. Ólafsson og hljómsveitin Facon frá Bíldudal hafði gert ódauðlegan 1969. Það þarf vart að taka fram að endurgerðin var öllu rokkaðri en fyrirmyndin. Þetta lag hefur hvergi komið út á plötu með Botnleðju en kom út á safnplötunni Pottþétt 32 sumarið 2003.

Eftir kosningarnar lauk samstarfi Botnleðju og Samfylkingarinnar og þá léku þeir víðs vegar um sumarið og haustið, sveitin spilaði t.a.m. á Innipúkanum um verslunarmannahelgina, síðar á Menningarnótt og Iceland Airwaves auk norskrar tónlistarhátíðar en í framhaldinu tóku þeir að slaka á yfir háveturinn.

Á þessum tíma var Botnleðja, eins og margar aðrar hljómsveitir, komin með eigið vefsetur en þeir voru einna fyrstir slíkra hérlendis til að opna vefbúð á vefsíðu sinni þar sem hægt var að kaupa ýmsan varning.

Það var svo eftir áramótin 2003-04 sem tilkynnt var að tríóið myndi koma fram á ATP (All tomorrow‘s parties) hátíðinni í Bretlandi um vorið sem þeir gerðu, sem og léku á Airwaves um haustið 2004 þar sem þeir léku nokkuð af nýju efni en að öðru leyti heyrðist lítt til sveitarinnar þótt þeir kæmu stöku sinnum fram.

Botnleðja

Þeir fóstbræður, Haraldur og Heiðar voru á þessum tímapunkti komnir á kaf í kennaranám í leikskólafræðum en þeir höfðu báðir þá verið að starfa í leikskóla eins og fyrr var nefnt. Þeir voru aukinheldur orðnir ráðsettir fjölskyldumenn og eðlilegt að rokkið yrði að víkja fyrir nýjum gildum. Tvímenningarnir sinntu þó Hafnarfjarðarmafíunni sem áður hefur verið nefnd sem sendi frá sér plötu 2004.

Sveitin var sögð vera á leið í hljóðver í upphafi árs 2005 en ekkert heyrðist meira um það og líkast til tengdist það útskriftarverkefni Haraldar og Heiðars í Kennaraháskólanum en það var í formi barnaplötu sem kom út 2006 undir nafninu Pollapönk. Ragnar bassaleikari lék einnig með þeim á þeirri plötu en var að öðru leyti ekki viðriðinn Pollapönkið sem átti eftir að koma meira við sögu á næstu árum, m.a. með plötur og sem fulltrúi Íslands í títtnefndri Eurovision keppni.

Botnleðja var hvergi sögð vera hætt störfum en þegar Ragnar fluttist tímabundið til Barcelona á Spáni þótti ljóst að sveitin væri á leið í lengri pásu en áður hafði tíðkast hjá henni, og þarna voru þeir augljóslega búnir að gefa meikdrauminn erlendis alveg upp á bátinn. Heiðar hafði byrjað að koma fram undir aukasjálfinu The viking giant show árið 2004 og stofnaði síðan hljómsveit og gaf út plötu undir því nafni, og Haraldur fór sjálfur af stað með eins manns verkefnið Fulli kallinn sem einnig gaf út plötu, þeir voru ekkert með puttana í verkefnum hvors annars þannig að Botnleðja var fullkomlega í fríi.

Af og til birtust fréttir þess eðlis að Botnleðja væri að koma saman aftur, væri byrjuð að æfa nýtt efni og þar fram eftir götunum en aldrei heyrðist þó til sveitarinnar og margir voru búnir að afskrifa hana. Sumarið 2006 fóru Heiðar og Haraldur að vinna með hljómsveitinni Kátum piltum (úr Hafnarfirði einnig) sem hafði slegið í gegn með slagaranum Feitar konur löngu fyrr, og var vinnuheiti þess verkefnis Kátir í botni, en ekkert heyrðist frekar af því samstarfi.

Botnleðju-aðdáendur fengu þó loks eitthvað þegar þeir Heiðar og Haraldur ásamt Þorbirni Sigurðsson (Tobba) sem lék á bassa, komu saman og léku nokkur Botnleðjulög sumarið 2010 en það var allt og sumt – í bili. Það var svo í desember 2011 að sveitin birtist óvænt sem leynigestur á X-mas tónleikum útvarpsstöðvarinnar X-sins sem haldnir voru í Kaplakrika, þá skipuð tríóinu Heiðari, Haraldi og Ragnari. Þeir tónleikar voru haldnir í minningu Hermanns Fannars Valgarðssonar sem þá hafði nýlega látist en hann var góðkunningi þeirra félaga.

Viðtökurnar sem sveitin fékk á X-mas tónleikunum urðu til að kveikja almennilega í þeim félögum og í kjölfarið var bandið keyrt í gang á nýjan leik. Fljótlega á nýju ári, 2012 boðaði Botnleðja endurkomu og sveitin birtist með tónleika á Gauknum um sumarið og léku í kjölfarið á All tomorrow‘s parties hátíðinni, Bestu útihátíðinni á Hellu, Eistnaflugi í Neskaupstað og Þjóðhátíð í Eyjum. Ekki varð meira um spilamennsku um sumarið en sveitin sendi frá sér tvöfalda safnplötu, Þegar öllu er á botninn hvolft (gefin út af Record records) um það leyti, sem hafði að geyma alla helstu slagara sveitarinnar auk heilmikils aukaefnis, m.a. tónleikaupptökum, demóupptökum auk tveggja nýrra og óútkominna laga. Útgáfutónleikar voru haldnir í Austurbæ við Snorrabraut.

Botnleðja lagðist eftir þessa törn aftur í kör og hefur ekki heyrst til hennar síðan en ekki hefur heldur verið gefið út dánarvottorð á sveitina. Þeir Haraldur og Heiðar hafa síðan vakið athygli með Pollapönk-sveitinni sem fyrr segir en minna hefur farið fyrir Ragnari bassaleikara á tónlistarsviðinu.

Lög með Botnleðju má finna á nokkrum safnplötum s.s. Flugan (1998), Íslensku tónlistarverðlaunin 1997 (1997), Stuð stuð stuð (2011), Rokkstokk 97 (1997), Súper 5 (1996), Fire and ice: Music from Iceland (1998), Eurospotting Copenhagen 98 (1998), Pottþétt 32 (2003), Iceland Airwaves (2000), Ferming 97 (1997), Pottþétt ´96 (1996), Popp í Reykjavík (1998), Icelandic rock classics (2015), Drepnir (1996) og Ávextir (1996).

Efni á plötum