Valur Emilsson (1947-2011)

Valur Emilsson

Söngvarinn og gítarleikarinn Valur Emilsson úr Keflavík kom við sögu í tveimur vinsælum hljómsveitum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar en var lítið viðloðandi tónlist að öðru leyti.

Valur Emilsson (f. 1947) vakti fyrst athygli með hljómsveitinni Óðmönnum (hinum fyrri) sem stofnuð var í Keflavík um áramótin 1965-66, þar var hann gítarleikari en sveitin naut nokkurra vinsælda og gaf út eina fjögurra laga plötu. Þegar Shady Owens söngkona sveitarinnar og Gunnar Jökull trommari hættu til að ganga til liðs við Hljóma hættu Óðmenn.

Valur hvarf þar með úr sviðsljósinu um árabil, hann lék reyndar lítillega með Nesmönnum og Uncle John‘s band (einn undanfari Mannakorna) og síðar með The Robots (Lúdó og Stefán) fyrir varnarliðsmenn á Keflavíkurflugvelli um tíma á fyrri hluta áttunda áratugarins en var lítið viðloðandi íslenskt tónlistarlíf að öðru leyti, hann starfaði við Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli og var þar um tíma formaður starfsmannafélags fríhafnarliða.

Það var svo haustið 1977 að Gunnar Þórðarson setti saman sönghópinn Lummurnar sem Valur birtist aftur í íslenskri tónlist en hann varð þar einn söngvara ásamt Lindu Gísladóttur, Ólafi Þórðarsyni, Jóhanni Helgasyni og Ragnhildi Gísladóttur. Lummurnar slógu rækilega í gegn með plötu sem innihélt „gamlar lummur“ í nýjum útsetningum og hópurinn fékk nóg að gera. Ári síðar kom út önnur plata sem seldist einnig gríðarlega vel þótt ekki seldist hún nándar nærri eins vel.

Lummurnar störfuðu ekki lengi eftir útgáfu síðari plötunnar og þar með hvarf Valur endanlega úr íslensku tónlistarlífi. Hann starfaði sem fyrr segir við Fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli en árið 1992 fluttist hann til Bandaríkjanna og bjó þar á annan áratug. Hann kom aftur heim til Íslands árið 2006.

Valur lést árið 2011 en hann var þá aðeins sextíu og fjögurra ára gamall.