Viðar Gunnarsson (1950-)

Viðar Gunnarsson

Óperusöngvarinn Viðar Gunnarsson hefur sungið í fleiri óperum en flestir aðrir Íslendingar, hann starfaði lengi vel í Þýskalandi en hefur nú aftur flutt heim til Íslands.

Viðar fæddist 1950 í Danmörku en bjó þó fyrstu ár ævi sinnar í Ólafsvík, hann hefur oft haldið tónleika þar á æskustöðvum sínum. Hann fluttist til Reykjavíkur um fimm ára aldur, útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík en þar kynntist hann sönglistinni þegar hann var í kór MR-inga undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar.

Að stúdentsprófi loknu hóf Viðar að kenna í Árbæjarskóla eftir að hafa verið eitt ár við nám í lögfræði, í kennslunni kynntist hann Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur sem hvatti hann til að ganga til liðs við Kór Langholtskirkju undir stjórn eiginmanns hennar, Jóns Stefánssonar. Hann var einnig um tíma meðal meðlima í Silfurkórnum sem margir muna eftir og gaf út nokkrar plötur.

Það var svo ekki fyrr en árið 1978 sem Viðar (sem er bassi) hóf nám í Söngskólanum í Reykjavík en einhverjir kórfélagar hans út Langholtskirkjukórnum höfðu þá skráð hann til náms án hans vitundar, og hann síðan boðaður í inntökupróf. Þá var hann orðinn 28 ára gamall og starfsmaður hjá Ríkisútgáfu námsbóka.

Í Söngskólanum nam Viðar mestmegnis hjá Garðari Cortes en einnig hjá Kristni Hallssyni, þaðan útskrifaðist hann árið 1981. Samhliða og eftir nám söng hann nokkuð á tónleikum, bæði einsöng t.d. með Kór Langholtskirkju en einnig hélt hann sjálfstæða tónleika.

Það var líklega strax um haustið 1981 sem Viðar hleypti heimdraganum og hélt til Svíþjóðar til framhaldsnáms, hann nam við óperuskóla í Stokkhólmi en var mestmegnis í einkakennslu næstu þrjú árin. Meðfram náminu fékkst hann einnig við kennslu og söng á tónleikum og þegar hann kom heim til Íslands haustið 1984 tók við hinn eiginlegi söngferill Viðars. Einhverjum kynni að þykja það seint en hann var þá orðin 34 ára gamall en hafa verður í huga að raddir bassasöngvara þroskast síðar og jafnframt getur söngferill þeirra staðið nokkuð lengur en annarra óperusöngvara.

Um vorið 1985 tók Viðar þátt í keppni sem kölluð var Söngvakeppni Sjónvarpsins en hún var haldin árið 1985 (þetta var í síðara skipti sem þessi keppni var haldin en hún var einnig haldin 1983), sigurvegari þeirrar keppni fór í alþjóðlega söngkeppni fyrir klassíska söngvara sem haldin var í Wales, en Viðar hafnaði í þriðja sæti hér heima.

Í Grímudansleiknum

Fyrsta alvöru söngverkefni Viðars var í óperunni Carmen vorið 1985 þar sem hann kom inn sem gestasöngvari í sex sýningum, Íslenska óperan var þá tiltölulega nýtekin til starfa. Um haustið fékk hann þó sitt fyrsta eiginlega hlutverk þegar hann söng í Grímudansleiknum og hann átti eftir að syngja ótal hlutverk þar og í Þjóðleikhúsinu næstu árin. Þeirra á meðal má nefna í óperum eins og Il trovatore, Tosca, Aidu, Don Giovanni, Ævintýri Hoffmanns, Brúðkaups Fígarós o.fl.

Eins og flestir aðrir óperusöngvarar hér á landi gegndi Viðar öðru starfi með söngnum, hans aðalstarf var þá hjá bókaforlaginu Vöku-Helgafell og þar átti hann eftir að verða hæstráðandi svo nóg var að gera hjá honum. Hann tók aukinheldur að sér önnur sönghlutverk og -verkefni, til að mynda söng hann í Fjalla-Eyvindi, óperutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, einnig söng hann einsöng í Jóhannesar-passíunni með Langholtskirkjukórnum og síðar í Messíasi með sama kór, hann kom jafnframt fram með Mótettukórnum og Karlakór Reykjavík og söng í kirkjuóperunni Abraham og Ísak auk þess að halda sjálfstæða einsöngstónleika, oftast með Selmu Guðmundsdóttur sem undirleikara. Ennfremur má nefna sjónvarpsóperuna Vikivaka eftir Atla Heimi Sveinsson sem norrænu sjónvarpsstöðvarnar höfðu samstarf með að framleiða en upptökur fóru fram hér á landi, ofan á þetta dvaldist hann suður á Ítalíu sumarið 1986 við söngnám.

Þáttaskil urðu á ferli Viðars haustið 1989 þegar honum bauðst að syngja í Töfraflautu Mozarts við Kammeróperuna í Vínarborg. Hann greip þá tækifærið, sagði upp störfum sínum hjá Vöku-Helgafelli og gerði sönginn að aðalstarfi sínu. Hann söng því í Austurríki um veturinn og í framhaldinu bauðst honum að syngja í óperunni í Wiesbaden í Þýskalandi vorið 1990 þar sem hann hlaut síðan tveggja ára ráðningu. Þangað fluttist Viðar með fjölskyldu sína sem átti eftir að búa í Wiesbaden næstu árin þótt hann ætti eftir að starfa víðar um Þýskaland, þá kom hann margoft hingað til Íslands og söng hér fjölda óperuhlutverka á næstu árum eftir því sem hægt var en yfirleitt deildi hann þá hlutverki sínum með öðrum söngvurum. Þannig sinnti hann verkefnum eins og í Töfraflautunni, Valdi örlaganna, Galdra-Lofti, La Bohéme, Hollendingnum fljúgandi og Rakaranum í Sevilla hjá Íslensku óperunni þótt hann byggi í Þýskalandi.

Viðar var sem fyrr segir ráðinn til tveggja ára í Wiesbaden en starfaði síðan í Essen í tvö ár og Bonn en var eftir það líklega mestmegnis sjálfstætt starfandi, söng ýmis hlutverk í Bregenz, Kassel, Mannheim, Dortmund, Bremen og víðar í Þýskalandi en einnig í öðrum löndum eins og Tékklandi, jafnvel Ísrael og Suður-Kóreu til að sinna smærri verkefnum sem upp komu.

Viðar um 1980

Þótt Viðar kæmi reglulega heim til Íslands til að syngja í óperuuppfærslum var þó minna um að hann kæmi fram á annars konar söngsamkomum hér á landi, hann reyndi þó eftir fremsta megni en það var svo ekki fyrr en árið 2002 sem hann hélt hér einsöngstónleika, hina fyrstu í mörg ár, það var í Salnum í Kópavogi og var Jónas Ingimundarson undirleikari hans, hann endurtók leikinn aftur nokkrum árum síðar. Hann hafði einnig sungið hér heima eitthvað utan hefðbundinna óperuuppfærslna árið 1990 en þá kom út plata á vegum Vöku-Helgafells (sem þarna var einnig orðið að plötuútgáfufyrirtæki) en hún fékk titilinn Í fjarlægð: Viðar Gunnarsson syngur íslensk einsöngslög, Jónas Ingimundarson leikur með á píanó. Sú útgáfa fór ekki hátt en það má kannski mestmegnis skrifa á knappan tíma sem Viðar hafði hér á landi til að fylgja henni eftir.

Árið 2011 fluttist Viðar loks heim á nýjan leik en hann hafði þá verið búsettur í Þýskalandi í á þriðja áratug. Minna hefur farið fyrir söng hans síðustu árin en hann hefur þó sungið í óperuuppfærslum á borð við Töfraflautunni, Il trovatore, La traviata, Don Carlo og Ragnheiði. Hans aðalstarf hefur verið söngkennsla við Söngskólann í Reykjavík síðan hann flutti heim til Íslands. Síðustu árin hefur hann og sungið með söngkvartettnum Sætabrauðsdrengjunum við nokkrar vinsældir.

Auk áðurnefndrar plötu sem kom út með Viðari árið 1990 er söng hans að finna á fáeinum öðrum plötum, hann söng t.a.m. á safnplötunni Ljóðatónleikar Gerðubergs III (1993), plötu með tónlistinni úr óperunni Ragnheiði (2014) og á plötu sem hefur að geyma upptöku frá Jóhannesar-passíunni með Langholtskirkjukórnum (1993).

Viðar hefur hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngvari ársins og einnig Grímu-verðlauna. Þá varð hann fyrstur íslenskra bassasöngvara til að syngja öll fimm bassahlutverkin í Niflungahring Wagners.

Efni á plötum