Afmælisbörn 29. desember 2021

Viðar Gunnarsson

Þá er komið að afmælisbörnum dagsins sem eru þrjú talsins að þessu sinni:

Alma (Goodman) Guðmundsdóttir söngkona er þrjátíu og sjö ára gömul í dag. Alma er hvað kunnust fyrir framlag sitt til söngsveitarinnar Nylons (síðar The Charlies) en hún kom einnig lítillega við sögu Eurovision undankeppninnar hér heima nýlega, hún býr nú og starfar í Bandaríkjunum.

Viðar Gunnarsson bassasöngvari er sjötíu og eins árs á þessum degi. Hann hafði sungið með nokkrum kórum áður en hann hóf söngnám kominn fast að þrítugu, hann fór svo til framhaldsnáms í Svíþjóð (og síðar Ítaliu) og eftir að hann kom heim aftur söng hann ýmis óperuhlutverk hér heima áður en hann fékk óperusamning í Þýskalandi um fertugt og bjó þar og starfaði lengi áður en hann kom aftur heim. Söng Viðars má heyra á fjölda platna.

Vilhjálmur (Björgvin Guðmundsson) frá Skáholti (1907-63) hefði einnig átt þennan afmælisdag en hann var fyrst og fremst ljóðskáld og hafa mörg ljóða hans orðið þekkt í flutningi tónlistarmanna. Þar má nefna Ó borg mín borg, Jesús kristur og ég og Herbergið mitt.

Vissir þú að árið 1983-84 var til hljómsveit sem hét því kunnuglega nafni Omicron?