Skólakórar voru starfræktir með reglulegu millibili í barna- og gagnfræðaskólunum í Vestmannaeyjum (aðallega þó barnaskólanum) en skólarnir höfðu verið starfandi þar lengi, barnaskólinn var með elstu skólum landsins og gagnfræðaskólinn hafði starfað frá 1930. Kórastarfið var þó langt frá því að vera með samfelldum hætti.
Ekki er vitað fyrir vissu hvenær fyrst var starfræktur skólakór í skólunum en elstu heimildir herma að Karl Guðjónsson hafi stýrt kór í barnaskólanum að minnsta kosti á árunum 1946-50 og einnig mun Oddgeir Kristjánsson hafa stýrt telpnakór þar árið 1952, ekki er ólíklegt að sá kór hafi tekið beint við af kór Karls. Upplýsingar vantar um hversu lengi Oddgeir stjórnaði kór við skólann, það var að minnsta kosti skólakór starfandi undir hans stjórn 1960 og 61 en Oddgeir lést snemma árs 1966.
Árið 1969 var stúlknakór við barnaskólann og sömuleiðis árið 1974 en kórastarf hafði þá væntanlega legið niðri um tíma vegna gossins í Heimaey, upplýsingar vantar um kórstjórnanda á þessum árum en hér er giskað á Sigurð Rúnar Jónsson (Didda fiðlu) sem um það leyti var búsettur í Eyjum.
Eftir 1974 er litlar upplýsingar að finna um skólakóra Barna- og gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum en á níunda áratugnum var Guðmundur Rúnar Lúðvíksson stjórnandi kórs við barnaskólann, m.a. árið 1985 en 1982 og 1988 komu út tvær plötur með Guðmundi Rúnari þar sem barnakórar (væntanlega þeir sömu) komu við sögu. Haustið 1996 var stofnaður kór við Barnaskóla Vestmannaeyja eftir nokkurt hlé og var þar Michelle Gaskell stjórnandi, sá kór starfaði að minnsta kosti til 2003 en haustið 2006 voru Barnaskóli Vestmannaeyja og Hamarskóli sameinaðir undir heitinu Grunnskóli Vestmannaeyja.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um sögu skólakóra Barna- og gagnfræðaskóla Vestmannaeyja og stjórnendur þeirra.