Viri Cantantes (1995-2001)

Viri Cantantes var söngkvartett karla skipaður félögum úr Mótettukórnum en kvartettinn starfaði á árunum 1995 og fram yfir aldamótin, til ársins 2001.

Í upphafi voru meðlimir Viri Cantantes þeir Heimir Salvar Jónatansson fyrsti tenór, Ólafur E. Rúnarsson annar tenór, Guðjón Halldór Óskarsson fyrsti bassi og Gunnar Jónsson annar bassi, og þannig var hópurinn skipaður fyrsta starfsárið. Árið 1996 tók Benedikt Ingólfsson við af Gunnari og þannig var hópurinn skipaður uns hann hætti störfum 2001.

Kvartettinn var meðal fjölmargra flytjenda sem komu við sögu á plötunni Heyrði ég í hamrinum (1997) en sú plata hafði að geyma lög Ingibjargar Sigurðardóttur frá Bjálmholti í Rangarþingi ytra. Einnig eru til upptökur af söng upphaflegu útgáfu kvartettsins en þær eru óútgefnar.