Víkingar [2] (1994)

Söngsveitin Víkingar

Söngsveitin Víkingar hefur starfað í Garði um áratuga skeið og skemmt Suðurnesjabúum með söng.

Víkingar, sem reyndar er karlakór mun hafa verið stofnaður í árslok 1994 en hugmyndin að stofnun hans má rekja til útilegu sem nokkrir söngmenn úr Garðinum höfðu verið í fyrir norðan fyrr sama ár, þar sem söngur og gleði hafði ríkt.

Hópurinn innihélt í upphafi um tug söngmanna úr Garðinum en síðar bættist verulega í hópinn og meðlimir koma nú úr Sandgerði, Njarðvíkum og víðar af Suðurnesjunum. Nafn kórsins kemur beint frá Karlakórnum Víkingi sem starfaði á svipuðum slóðum nokkrum áratugum áður.

Einar Örn Einarsson var stjórnandi Víkinga árið 1998 en ekki liggur fyrir hvort hann hafði þá verið við stjórnvölinn frá upphafi. Sigurður Sævarsson tók við af honum haustið 2001 en síðan hefur Jóhann Smári Sævarsson stjórnað kórnum sem heldur fast í hefðir með vortónleika og kvennakvöld, og syngur stöku sinnum við önnur tækifæri. Víkingar hafa yfirleitt undirleikara með sér á tónleikum en misjafnt er á hvaða hljóðfæri þeir leika, stundum píanó, harmonikku eða banjó, jafnvel hafa þeir haft með sér heila hljómsveit.

Víkingar voru meðal kóra sem kepptu í sjónvarpsþættinum Kórar Íslands, á Stöð 2 árið 2017.