Víkingasveitin [2] (1993-2016)

Víkingasveitin

Víkingasveitin úr Hafnarfirði (einnig stundum nefnd Víkingarnir / Víkingabandið) mun hafa starfað í á þriðja áratug en sveitin var áberandi á víkingahátíðum hvers kyns hér á landi, oft í tenglum við Fjörukrána. Hún lék m.a. erlendis á slíkum hátíðum í Hafnarfirði en einnig í Svíþjóð og Þýskalandi, þá lék sveitin ennfremur á Íslendingahátíð vestan hafs og í Hollandi.

Víkingasveitin starfaði líklega frá árinu 1993 en þá um vorið er fyrst minnst á sveitina í dagblöðum. Kjarni sveitarinnar var þeir Smári Eggertsson bassaleikari [?] og bræðurnir Helgi Hermannsson og Hermann Ingi Hermannsson sem léku líklega á gítara og sjálfsagt fleiri hljóðfæri, allir sungu þeir félagarnir. Sveitin var misstór og mismunandi skipuð enda starfaði hún um langan tíma við misjafnar aðstæður hvers og eins, lengi var t.d. um að ræða dúett Hermanns Inga og Smára en einnig komu aðrir meðlimir við sögu hennar, söngkonan Sólveig Birgisson var með þeim t.a.m. um tíma, einnig léku Ingi Gunnar Jóhannsson, Hilmar Sverrisson og Már Elíson með sveitinni tímabundið  sem og hinir og þessir söngvarar við ýmis tækifæri. Víkingasveitin virðist hafa verið húsband í Fjörukránni og því hafi vertinn þar jafnvel haft eitthvað um mannaskipan sveitarinnar að gera.

Strax árið 1993 sendi Víkingasveitin frá sér plötuna Víkingaveisla / A viking feast with the Viking band in Fjörukráin, á henni var að finna fjórtán lög, mestmegnis þjóðlög frá ýmsum löndum við íslenska texta en einnig var að finna fáein frumsamin lög á henni. Víkingasveitin og Fjörukráin gáfu plötuna út en hún var hljóðrituð í Hljóðrita í Hafnarfirði um sumarið.

Víkingasveitin hefur starfað með hléum, oft mestmegnis í kringum víkingahátíðir sem fyrr segir en einnig hafa þeir félagar tekið þorrablótavertíðina með trompi í Hafnarfirði. Sveitin var enn starfandi árið 2016 en ekki liggur fyrir hvort hún sé lífs eða liðin þegar þetta er ritað.

Efni á plötum