Afmælisbörn 23. maí 2019

Tómas M. Tómasson

Fjögur afmælisbörn koma við sögu í dag:

Tómas Magnús Tómasson (Tommi Tomm) bassaleikarinn góðkunni hefði orðið sextíu og fimm ára gamall í dag en hann lést á síðasta ári. Tommi er auðvitað þekktastur fyrir Stuðmannaframlag sitt en hann plokkaði bassann í mun fleiri sveitum, s.s. Amor, Arfa, Þursaflokknum, Fónum, Gæðablóðum, Change, Mods, Bítladrengjunum blíðu, Rifsberju, Snillingunum og Sirkus Homma Homm. Tómas starfaði einnig nokkuð við upptökur.

Kári Þormar (Kárason) kórstjórnandi og organisti er fimmtíu og eins árs gamall í dag. Kári sem í dag er stjórnandi Dómkórsins og organisti kirkjunnar, hefur komið víða við á sínum ferli og starfaði til að mynda við Áskirkju, Fríkirkjuna og víðar. Kári nam orgel- og píanóleik hér heima, auk framhaldsnáms í Þýskalandi.

Árni Vilhjálmsson söngvari FM Belfast er aukinheldur þrjátíu og níu ára gamall í dag. Árni hefur auk þess að vera í FM Belfast, verið í rappsveitinni Motherfuckers in the house.

Einnig hefði Margrét Sighvatsdóttir söngkona og tónskáld átt afmæli á þessum degi en hún lést 2012. Margrét (f. 1930) bjó lengstum í Grindavík en var upphaflega af Rangárvöllunum, hún nam söng hjá Sigurði Demetz, Maríu Markan, Guðrúnu Á. Símonar og fleirum en hún lærði einnig á píanó auk þess að spila á fleiri hljóðfæri. Börn hennar gáfu út plötuna Lögin hennar mömmu í tilefni af áttræðis afmæli hennar 2010.