Magnús Randrup (1926-2006)

Magnús Randrup

Magnús Randrup var þekktur harmonikkuleikari hér fyrr á árum sem starfrækti lengi sveitir undir eigin nafni en lék einnig með fjölda annarra sveita. Hann var sjálfmenntaður í list sinni.

Magnúr Kristinn Randrup fæddist í Hafnarfirði 1926 og þar bjó hann um helming ævi sinnar, faðir hans var danskur málari og af honum lærði Magnús málaraiðnina og varð síðan meistari í henni en hafði tónlistina alla tíð sem aukastarf og varð vinnudagurinn því oft æði langur.

Magnús var sannkallað undrabarn í tónlistinni, hann var farinn að leika á harmonikku aðeins fimm ára gamall og ári síðar eignaðist hann sína fyrstu nikku. Níu ára lék hann í fyrsta sinni opinberlega á harmonikkuna og reyndar bauðst honum tíu ára gömlum að fylgja söngvararnum Sigurði Skagfield til Danmerkur og læra á hljóðfærið hjá fremstu harmonikkuleikurum þeirra, því hafnaði Magnús því honum hugnaðist fremur að fara fljótlega á vinnumarkaðinn eins og jafnaldrar hans á þeim tíma. Magnús nam því aldrei harmonikkuleik en fékk þó einhverja örlitla leiðsögn hjá Stefáni Þorleifssyni, hann las t.d. aldrei nótur en var náttúrubarn í tónlistinni og lék eftir eyranu og tilfinningunni.

Þrettán ára gömlum bauðst honum að leika í kabarett sýningum sem settar voru á svið í miðbæ Reykjavíkur og um svipað leyti var hann kominn í sína fyrstu hljómsveit, tríó sem skipað var hafnfirskum jafnöldrum hans. Sú sveit var svo einkennilega sem það hljómar skipuð tveimur harmonikkuleikurum og blokkflautuleikara, og lék á dansleikjum en aðallega skemmtunum fyrir börn en hún mun einnig hafa leikið í barnaþætti í Ríkisútvarpinu.

Fljótlega var Magnús einnig farinn að leika á jam-sessionum með hinum og þessum og fjölmargar hljómsveitir fylgdu í kjölfarið. Sumar þeirra fengu aldrei nafn en síðan komu sveitir eins og Kátir piltar, Hljómsveit Jónatans Ólafssonar, Hljómsveit Óskars Cortes og Hljómsveit Steinþórs Steingrímssonar, fyrst á ýmsum stöðum í Hafnarfirði s.s. Hótel Birninum, Góðtemplarahúsinu og Alþýðuhúsinu en svo einnig í Reykjavík. Hann lék einnig eitt sumar (1947) norður á Siglufirði þegar síldarævintýrið stóð þar sem hæst. Sem fyrr segir var harmonikkan aðal hljóðfæri Magnúsar en hann lék um tíma einnig á trompet í þessum sveitum og síðan saxófón sem varð hans aðal verkfæri ásamt nikkunni. Einnig mun hann hafa leikið á horn.

Magnús árið 1942

Árið 1950 var Magnús einn af þeim sem staðið höfðu að undirbúningi og síðan stofnun Lúðrasveitar Hafnarfjarðar og lék hann með sveitinni uns hann flutti til Reykjavíkur árið 1962. Um svipað leyti (1950) stofnaði hann sveit undir eigin nafni og starfaði hún í um sjö ár, þetta var sveit sem lék gömlu dansana og komu ýmsir söngvarar við sögu hennar. Hann starfaði einnig áfram með Hljómsveit Steinþórs Steingrímssonar, Fjórum jafnfljótum, Hljómsveit Guðmundar Finnbjörnssonar og með ýmsum hljómsveitum sem léku fyrir hermenn á Vellinum, þ.á.m. má nefna Hljómsveit Eriks Hubner. Árið 1957 lék Magnús í fyrsta sinn á plötuupptöku en það var með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á plötu Skapta Ólafssonar, Ef mamma vissi það / Syngjum dátt og dönsum, þar sem hann lék á tenór saxófón.

1960 stofnaði Magnús aftur sveit í sínu nafni sem sérhæfði sig í gömlu dönsunum, þessi sveit starfaði allt til ársins 1968 og lék mestmegnis í Silfurtunglinu en leið undir lok samhliða því sem straumar og stefnur breyttust í íslensku tónlistarlífi og skemmtanahaldi. Þar með var hljómsveitastússi Magnúsar að mestu lokið en hann starfrækti þó sveit um skamman tíma í kringum 1980 og lék með stöku tríói á þorrablótum og harmonikkudansleikjum síðar meir. Árið 1982 hélt Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) upp á 50 ára afmæli sitt með tónleikahaldi og var tvöföld plata gefin út með úrvali frá þeim tónleikum, þar birtist Magnús á harmonikku með hljómsveit sem sett var saman undir stjórn Jónatans Ólafssonar og voru þá liðin tuttugu og fimm ár frá því að síðast hafði heyrst til hans á plötu. Enn liðu fimmtán ár áður en leik Magnúsar mátti heyra á þriðju plötunni, það var safnplatan Hafnarfjörður í tónum en hún kom út árið 1998 og hafði að geyma tónlist úr ýmsum áttum í hafnfirsku tónlistarlífi.

Hin síðari ár var Magnús nokkuð virkur í harmonikkusamfélaginu og kom aukinheldur oft fram einn með nikkuna tengt hinum ýmsu skemmtunum, hann kom t.d. fram með leikhópunum Snúði og Snældu í lok tuttugustu aldarinnar og Hana-nú í byrjun nýrrar aldar en það var hópur eldri borgara sem fór m.a. hringferð í kringum landið með sýningu sína. Magnús var enn að koma fram haustið 2005 með nikku sína en hann lést í ársbyrjun 2006 á áttugasta aldursári.