Magnús Magnússon [2] (1929-2007)

Magnús Magnússon

Sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon (Magnus Magnusson) var auðvitað ekki tónlistarmaður en rödd hans er engu að síður að heyra á útgefnum plötum.

Magnús (Magnús Sigursteinsson) fæddist 1929 á Íslandi en fluttist kornungur til Edinborgar í Skotlandi með fjölskyldu sinni og bjó alla ævi á Bretlandseyjum þótt hann teldi sig alla tíð Íslending og hélt fast í íslenskar rætur sínar, kom t.a.m. reglulega heim til Íslands. Hann tók upp föðurnafn föður síns að breskum sið og hélt því alla ævi.

Magnús nam ensku og bókmenntir og síðar íslenskar fornbókmenntir, og eftir hann liggja fjölmörg rit um efni tengt því. Hann starfaði um tíma við ritstörf á dagblöðum og gegndi ritstjórnarstörfum samhliða því en hans aðal vettvangur varð síðar sjónvarpið en hann starfaði lengstum fyrir breska ríkisútvarpið BBC, og þar stendur upp úr þátturinn Mastermind sem hann stýrði við miklar vinsældir í um tvo áratugi.

Magnús fékkst einnig heilmikið við þýðingar, þýddi m.a. íslenskar fornbókmenntir yfir á ensku en einnig t.d. rit Halldórs Laxness. Hann hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín bæði á Íslandi og í Bretlandi og hlaut hann t.d. bæði fálkaorðuna og stórriddarakross hér heima.

Rödd Magúsar má heyra á að minnsta kosti tveimu útgefnum plötum, þar sem hann les sögur og ljóð.

Magnús lést árið 2007, sjötíu og sjö ára gamall.

Efni á plötum