
Magnús Magnússon
Afar takmarkaðar upplýsingar er að finna um Magnús Magnússon sem um miðjan sjötta áratug síðustu aldar vakti nokkra athygli fyrir sönghæfileika.
Magnús var einn ellefu söngvara sem stigu á stokk í eins konar hæfileikakeppni í Austurbæjarbíói sumarið 1955 en þar öttu kappi ungir og efnilegir söngvarar á aldrinum sextán til tuttugu og fimm ára undir stjórn Svavars Gests sem starfrækti ráðningaskrifstofu skemmtikrafta á þeim tíma, en söngvararnir sungu allir við undirleik Hljómsveitar Árna Ísleifs. Hér er reiknað með að Magnús hafi verið meðal þeirra eldri í hópnum og því hefur hann verið fæddur um 1930. Hann hlaut jákvæða umfjöllun í dagblöðum þess tíma og var t.a.m. sagður vera fyrirtaks gamanvísnasöngvari, í kjölfarið söng hann einnig í útvarpsþætti og hlaut einnig jákvæða gagnrýni eftir þann þátt.
Magnús söng með einhverjum hljómsveitum á dansleikjum árið 1956 en ekki liggur fyrir hvaða sveitir það voru, ein þeirra gæti þó hafa verið KK sextett. Tveimur árum síðar söng maður með sama nafni með hljómsveit Jazzklúbbs Vestmannaeyinga í Eyjum en engar upplýsingar liggja fyrir um hvort um sama söngvara er að ræða.
Hér er óskað eftir frekari upplýsingum um Magnús Magnússon.