Magnús Einarsson [2] (1952-)

Magnús R. Einarsson

Tónlistar- og dagskrárgerðarmaðurinn Magnús R. Einarsson hefur komið víða við á löngum tónlistarferli en hljómsveitir sem hann hefur starfað með fylla marga tugi, þá hefur hann löngum verið eftirsóttur mandólín leikari þegar kemur að hljóðversvinnu.

Magnús Ragnar Einarsson (1952-) er fæddur og uppalinn á Seyðisfirði og þar virðist tónlistarkrókurinn hafa beygst snemma, hann mun hafa verið farinn að leika í hljómsveitum á unga aldri. Meðal sveita sem heimildir finnast um má nefna hljómsveitirnar Lubba og Forhúð en einnig hefur hljómsveitin 3,50 verið nefnd. Þá komu til sögunnar sveitir eins og Hljómsveit Magnúsar Einarsson og nágrennis, Einsdæmi og Nasasjón áður en fyrsta þekkta sveitin leit dagsins ljós, en það var Þokkabót. Hún mun hafa verið stofnuð 1972 en vakti athygli vorið 1974 þegar fyrsta plata þeirra kom út, Magnús mun mestmegnis hafa leikið á bassa en einnig fleiri hljóðfæri auk þess sem hann söng eins og aðrir meðlimir sveitarinnar.

Þokkabót starfaði ekki samfleytt á þessum árum og Magnús starfaði t.d. við kennslu á Seyðisfirði yfir vetrartímann en starfaði á höfuðborgarsvæðinu um sumartímann af því er virðist, hann hætti í Þokkabót um miðjan áttunda áratuginn og lék með hljómsveitinni Dögg um skamman tíma og síðan Hljómsveit Ólafs Gauks og Stemmu.

Magnús varð nú eftirsóttur hljóðversspilari og lék t.a.m. á plötu Ólafs Þórðarsonar, Í morgunsárið (reyndar ásamt öðrum Þokkabótar-liðum) og síðan á plötu Spilverk þjóðanna, Íslandi. Þar tók hann í raun við af Agli Ólafssyni sem hafði hætt til að stofna Þursaflokkinn. Og þar sem Magnús var kominn í þennan félagsskap varð hann einnig einn Hrekkjusvína sem sendi frá sér plötuna Lög unga fólksins árið 1977.

Magnús hefur alltaf verið mikill landshornaflakkari og árið 1979 fluttist hann suður til Ítalíu þar sem hann bjó næstu þrjú árin og kom því lítið við sögu íslensks tónlistarlífs næstu misserin. Síðar átti hann eftir að ferðast um Asíu og búa víðar erlendis s.s. í Frakklandi og Spáni.

Magnús R. Einarsson

Hann kom aftur til Íslands 1982 og hélt þá áfram þar sem frá var horfið í tónlistinni þótt hann yrði ekki eins áberandi og áður, hann stofnaði og starfrækti hljómsveitina Fána og hún starfaði með hléum í fjölda ára, þá starfaði hann með Kaktus um tíma en nýr kafli í lífi hans hófst árið 1985 þegar hann gerðist dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu, fyrst á Rás 1 og síðar einnig á Rás 2 þar sem hann stjórnaði fjölda útvarpsþátta af ýmsu tagi næstu áratugina, en hann gegndi einnig stöðu tónlistarstjóra á Rás 2 um langan tíma. Samhliða dagskrárgerð í útvarpi lék hann inn á fjölda platna en hann varð afar eftirsóttur mandólínleikari eftir að hafa keypt slíkt hljóðfæri á Írlandi, hann hefur t.d. leikið á mandólín á plötum Harðar Torfa, KK & Magnúsar Eiríkssonar, Höllu Margrétar Árnadóttur, Gísla Helgasonar, Halla Reynis og Ríó tríós, og reyndar var hann fastur meðlimir Ríósins um tíma. Þá hefur hann einnig leikið á ýmis hljóðfæri á plötum Bubba Morthens, Mannakorna, Kristjáns Hreinssonar, Megasar, Rúnars Júlíussonar, Síðan skein sól, Baggalúts og Björgvins Halldórssonar svo einungis fáein dæmi séu hér nefnd.

Magnús hefur í seinni tíð starfað með fjölmörgum hljómsveitum um lengri og skemmri tíma, á tíunda áratugnum lék hann með Kuran swing um tíma, kom við sögu Sveitarinnar milli sanda og Hljómsveit Jarþrúðar en var líklega ekki fastur meðlimur sveitanna tveggja. Hann hefur einnig leikið á tónleikum annarra tónlistarmanna sem aðstoðarmaður. Árið 1996 gekk hann til liðs við Brimkló sem þá hafði verið endurvakin, og eftir aldamótin hefur hann leikið með hljómsveitum eins og Gras, Slow Beatles, Gæðablóðum, Þjóðlagasveit höfuðborgarsvæðisins, Bítladrengjunum blíðu, Magnús R. Einarsson tríó og Spottunum, sem sumar hverjar hafa sent frá sér plötur, hann starfrækti um tíma dúettinn Sviðna jörð ásamt Frey Eyjólfssyni og gáfu þeir út plötuna Lög til að skjóta sig við (2006) sem vakti nokkra athygli. Ásamt því að koma fram með hljómsveitum sínum hefur Magnús gert nokkuð að því að koma einn fram með frumsamið efni sem og eftir aðra, auk þess sem hann hefur komið að áhugaleikhópum og samið tónlist fyrir þann geira.

Magnús hefur um langan tíma samið tónlist sjálfur og t.a.m. þekkja margir lagið Möwekvæði sem Þokkabót gerði vinsælt hér áður, fleiri lög hafa einnig komið út á plötum eftir hann (s.s. með Sviðinni jörð, Fánum og Þokkabót). Magnús hefur unnið að sólóplötu sem hafði fengið vinnutitilinn Máðar myndir, en hún bíður enn útgáfu.

Efni á plötum