Markús Kristjánsson (1902-31)

Markús Kristjánsson

Markús Kristjánsson var ungur og efnilegur píanóleikari og tónskáld sem dó langt fyrir aldur fram úr berklum, og væri nafn hans án nokkurs vafa mun stærra í íslenskri tónlistarsögu hefði hann náð að eflast og þróast í sköpun sinni.

Markús Finnbogi Kristjánsson fæddist í Reykjavík árið 1902, hann nam píanóleik í fyrstu hjá Reyni Gíslasyni og þótti strax efnilegur píanóleikari. Hann lék á ótal tónleikum strax um tvítugt og var samstarf hans við Theódór Árnason fiðluleikara þekkt en þeir léku saman bæði á tónleikum og öðrum skemmtunum s.s. kvikmyndasýningum og undir dinner á Hótel Skjaldbreið. Þá lék hann jafnframt undir söng ýmissa einsöngvara.

Markús lagði alla áherslu á tónlistina og hætti í menntaskólanámi sínu til að mennta sig í tónlistinni, hann fór haustið 1923 til Danmerkur og lærði þar hjá Haraldi Sigurðssyni og tók þá danskt stúdentspróf í leiðinni. Þegar þaðan kom var hann fremur duglegur að leika á tónleikum og þá var hann einnig farinn að leika frumsamið efni, auk þess kenndi hann á píanó. Hugur hans stefndi enn hærra og hann fór til Leipzig og síðar Berlín í Þýskalandi til frekari framhaldsnáms í píanóleik auk tónfræði, og hlaut fjárstyrk frá hinu opinbera til þess, en þá veiktist hann af berklum sem áttu eftir að draga hann til dauða, Markús hafði þá reyndar verið veill fyrir um tíma.

Markús kom heim í frí sumarið 1928 og ætlaði sér aftur út en var þá orðinn verulega veikur, hann frestaði t.d. tónleikum sem hann hafði ætlað að halda og þurfti síðan að hætta á miðjum tónleikum þegar hann treysti sér til þeirra, hann lék þó eitthvað á tónleikum, m.a. með Eggert Stefánssyni einsöngvara. Hann fór ekki aftur út til Þýskalands, var um tíma á Kleppsspítala og síðan á Vífilsstöðum og þar lést hann sumarið 1931 úr tæringu, rétt tæplega tuttugu og níu ára gamall.

Síðustu árin hafði hann vakið mikla athygli fyrir sönglög sín og hefur hans síðan fremur verið minnst sem tónskálds fremur en píanóleikara enda hafði hann þá leikið nokkur þeirra á tónleikum og upp úr því komu einhver sönglaga hans út á plötum, þeirra þekktast er líkast til Bikarinn (við ljóð Jóhanns Sigurjónssonar) og Gott er sjúkum að sofa (við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi) sem bæði bera keim af veikindum hans. Meðal annarra sönglaga eftir Markús má nefna Den blonde pike, Tilbrigði við Ólaf liljurós, Er sólin hnígur (Kvöldsöngur), Minning (Þú varst minn vetrareldur) og Tunglið tunglið taktu mig. Nótnaheftið Tíu sönglög eftir Markús Kristjánsson var gefið út árið 1943 en píanólög hans hafa líklega aldrei verið útgefin. Hann hafði margs konar plön um tónsmíðar, stefndi hátt og ætlaði sér að semja kantötur og jafnvel óperur en entist ekki aldur til.

Um það leyti sem Markús lést var hann orðinn þjóðþekktur fyrir lög sín og hæfni á hljóðfærið og til marks um það má nefna að nafn hans var notað við auglýsingar á Steinway píanóum og flyglum á sínum tíma hér heima. Nafn Markúsar er enn stöku sinnum nefnt í tengslum við sum sönglaga hans sem hafa lifað ágætu lífi til dagsins í dag en að öðru leyti hefur nafn hans smám saman horfið af sjónarsviðinu.