Marta Kalman (1889-1940)

Marta Kalman

Leikkonan Marta Kalman (Martha María Indriðadóttir) var dóttir Indriða Einarssonar leikritaskálds og var meðal fremstu leikkvenna hér á landi á fyrri hluta 20. aldar.

Marta var fædd árið 1889, hún ólst upp í Reykjavík og hófst leikferill hennar strax við unglingsaldur, hún varð fljótlega meðal virtustu leikkvenna hér á landi og þótti sérlega góð í gamanleik. Hún þýddi jafnframt leikrit, leikstýrði og sinnti félagsstörfum í þágu leikhússins, var t.a.m. gjaldkeri Leikfélags Reykjavíkur og formaður þjóðleikhúsnefndar. Marta átti lengi við vanheilsu að stríða og lést eftir uppskurð á Landakotsspítala sumarið 1940.

Marta hafði margsinnis komið fram á skemmtunum fyrir börn með upplestri og söng, og sumarið 1930 var tekin upp 78 snúninga hljómplata með upplestri hennar á sögu eftir Jónas Hallgrímssonar um heimsókn drottningarinnar á Englandi til kóngsins í Frakklandi, eins og því var lýst í samtíma-auglýsingum. Þetta var hluti af upptökutörn sem var liður í heimsókn upptökumanna á vegum Columbia í tilefni af Alþingishátíðinni en ótal plötur voru þá teknar upp í samkomuhúsinu Bárunni. Platan kom út um haustið og var þá fyrsta platan hérlendis sem sérstaklega var unnin fyrir börn þótt ekki væri tónlist á henni. Hún var síðan endurútgefin haustið 1954.

Efni á plötum