Marta Bjarnadóttir (1944-)

Marta Bjarnadóttir

Marta Bjarnadóttir söng með nokkrum hljómsveitum um og eftir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar, hún lagði þó tónlistina ekki fyrir sig en haslaði sér völl á allt öðrum vettvangi.

Marta (Sigríður) Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 1944 og þegar hún var ríflega tvítug hóf hún að syngja með Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar á skemmtistaðnum Röðli þegar hún leysti söngkonuna Önnu Vilhjálms af hólmi sem fór þá í barneignafrí. Marta söng með hljómsveit Magnúsar veturinn 1966-67 og sumarið 1968 söng hún einnig með Kvartett Þórarins Ólafssonar (sem hún síðan giftist) í Súlnasal Hótel Sögu og fram á haustið en hljómsveitin Musica Prima var stofnuð upp úr henni og skemmti á Sögu í kjölfarið.

Barneignir tóku við og síðan stofnaði Marta tískuverslunina Evu (og síðar fleiri verslanir) ásamt Þórarni eiginmanni sínum og helgaði sig þeim starfsvettvangi upp frá því. Þess má geta að Eva Guðný Þórarinsdóttir fiðluleikari er dóttir þeirra Mörtu og Þórarins.