Magnús Ólafsson (1946-)

Magnús Ólafsson

Skemmtikraftinn Magnús Ólafsson (Maggi Ólafs) þekkja flestir, ef ekki í hlutverki bæjarstjórans í Latabæ, Bjössa bollu eða Þorláks þreytta, þá af lögum eins og Prins póló sem hann gerði feikivinsælt á níunda áratugnum.

Magnús fæddist á Siglufirði 1946 en flutti ungur með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þar sem hann bjó alla sína æsku áður en hann flutti í Hafnafjörðinn. Hann fékk snemma áhuga á leiklist og kvikmyndum, fór í leiklistarskóla Ævars Kvaran en lauk þar ekki námi heldur kláraði nám í prentiðn. Hann lék þó töluvert á sínum yngri árum, m.a. smærri hlutverk í Þjóðleikhúsinu, en hans aðalstarf var tengt prentinu – vann t.d. hjá flestum stóru dagblöðunum við útlitshönnun.

Magnús var kominn á fertugsaldur þegar hann sló í gegn sem skemmtikraftur, hann hafði leikið nokkuð og vakið verulega athygli í sjónvarpsmyndinni Lítilli þúfu (1979), og í kjölfarið kom hann við sögu í kvikmyndunum Landi og sonum og Óðali feðranna. Þá bauðst honum að leika Þorlák þreytta á sviði með Leikfélagi Kópavogs og þar sló hann í gegn svo um munaði og reyndar var hann lengi kallaður Þorlákur þreytti. Á einni sýningunni var Ragnar Bjarnason viðstaddur, sem hreifst svo af frammistöðu Magnúsar að hann fékk hann með í Sumargleðina, sem hafði farið ótal ferðir umhverfis landið með skemmtanir og dansleiki yfir sumartímann.

Með Sumargleðinni starfaði Magnús til ársins 1986 þegar hún hætti störfum, árið 1981 kom út platan Sumargleðin syngur og þar söng hann stórsmellinn Prins póló sem naut gríðarmikilla vinsælda um sumarið og heyrist enn stöku sinnum. Þar söng hann einnig annað lag, Símtalið en það náði ekki eins miklum vinsældum. Önnur plata birtist með Sumargleðinni 1984, Af einskærri sumargleði, en sú plata þótti fremur misheppnuð – það var helst að lagið Dalli drifskaft í flutningi Magnúsar fengi náð fyrir eyrum hlustenda. Margar tilraunir voru síðar gerðar til að endurvekja Sumargleðina en þeirra tími var þá liðinn.

Magnús með Ómari Ragnarssyni og Bessa Bjarnasyni í Sumargleðinni

Sama ár og Magnús byrjaði að skemmta með Sumargleðinni (1980) hóf hann að leika jólasvein ásamt félaga sínum úr hópnum, Þorgeiri Ástvaldssyni. Þeir félagar gerðu út á þann jólasveinabransa í fjöldamörg ár og gáfu út tvær plötur á vegum Steina (Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki (1982) og Hurðaskellir og Stúfur snúa aftur (1989)), og komu reyndar við sögu á fleiri jólaplötum. Frægt er þegar Magnús var handtekinn við alþingishúsið í gervi Hurðaskellis er þeir félagar reyndu að komast þar inn til að gefa þingmönnum epli.

En þeir Magnús og Þorgeir gáfu einnig út annars konar plötu síðsumars 1983, það var eins konar poppplata sem bar hinn langa titil Út um hvippinn og hvappinn: Áfram með smjörið, upp með fjörið, það er alveg kjörið, en undirtitillinn var vísun í fyrsta lag plötunnar sem naut nokkurra vinsælda og var sungið af þeim báðum. Þar er einnig að finna lagið Hagavagninn sem töluvert var leikið í útvarpi við vinsældir. Platan var gefin út af Geimsteini og tekin upp í Upptökuheimili Geimsteins í Keflavík en þar var Þórir Baldursson allt í öllu. Lögin komu úr ýmsum áttum bæði íslensk og erlend en Þorgeir hafði samið nokkur þeirra.

Árið 1988 sendi Magnús frá sér sína einu sólóplötu en hún var gefin út á þeim tímamótum að hann hafði verið áratug í skemmtibransanum, og bar platan því titil við hæfi: Maggi með öllu: tíu ár í bransanum. Hann gaf plötuna út sjálfur undir merkjum auglýsingastofu sinnar sem hann rak þá en platan var tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði þar sem Gunnar Árnason var við takkana en Magnús Kjartansson annaðist útsetningar laganna, sem komu úr ýmsum áttum, Þorsteinn Eggertsson átti flesta texta plötunnar. Magnús bar sönginn uppi á plötunni að langmestu leyti sjálfur en Sigríður Beinteinsdóttir kom þó einnig við sögu sem og barnakór í einu lagi. Platan vakti enga sérstaka athygli en mun þó hafa selst þokkalega. Þess má geta að móðir Magnúsar, Rósa Guðjónsdóttir samdi lokalag plötunnar við ljóð Steins Steinarr, Elín Helena.

Magnús Ólafsson

Auk ofangreindra platna hefur Magnús komið við sögu á fjölmörgum öðrum plötum og hafa sum laganna orðið nokkuð þekkt, þeirra á meðal má nefna lagið Geymdu þína ást sem hann söng ásamt Þuríði Sigurðardóttur sem starfaði með honum í Sumargleðinni um tíma, og birtist á safnplötunni Fjórtán faðmlög (1985). Einnig má nefna Góða, gamla Ísland á plötunni Ég kveðju sendi-herra með Áhöfninni á Halastjörnunni (1983). Þá söng hann ásamt fleirum lagið Við eigum hvor annan að í teiknimyndinni um Tomma og Jenna (1993) og söng einnig heilmikið á Latabæjarplötunum þar sem hann var í hlutverki bæjarstjórans í Latabæ. Söng hans má einnig heyra á fjölmörgum plötum sem hafa að geyma tónlist úr leikhúsinu s.s. Ronja ræningjadóttur, Rocky horror og Meiri gauragang.

Magnús sló í gegn sem fyrr segir sem Þorlákur þreytti en önnur persóna sem hann skóp varð sjálfstæður karakter og hefur lifað góðu lífi á ýmsum stöðum s.s. í grínþáttum, á plötum, á skemmtunum (einkum fyrir börn) og síðast en ekki síst í Stundinni okkar þar sem hann birtist fyrst, þetta var Bjössi bolla sem allir þekkja auðvitað.

Magnús hefur reyndar komið við á hinum ótrúlegustu stöðum og má sjá hann og heyra víða tengt sjónvarpi, kvikmyndum, leikhúsi og skemmanabransanum almennt og reyndar er sagt að hann sé upphafsmaður Hafnarfjarðarbrandaranna sem tröllriðu öllu fyrir nokkrum áratugum og hafa reyndar lifað ágætu lífi vel fram á þessa öld.

Efni á plötum