María Baldursdóttir (1947-)

María Baldursdóttir

Söngkonan María Baldursdóttir var töluvert áberandi í íslensku tónlistarlífi á áttunda áratug síðustu aldar en einkum þó á heimavelli á Suðurnesjunum. Hún hefur sent frá sér þrjár sólóplötur en starfað einnig með vinsælum hljómsveitum.

María (f. 1947) er Keflvíkingur og uppalin þar í bæ, hún lærði sem barn á píanó en var snemma farin að syngja með hljómsveitum í Keflavík sem síðar varð höfuðvígi bítla og blómabarna. Hún var þrettán eða fjórtán ára gömul þegar hún hóf að syngja með ónefndri skólahljómsveit í Keflavík sem starfaði í nokkur ár og fékk líklega síðar heitið Skuggar en síðar komu til sögunnar Bluebirds, The Swingers og Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar en með einhverjum þeirra sveita söng hún á skemmtunum hermanna á Keflavíkurflugvelli. Þá þurfti hún að fá undanþágu vegna ungs aldurs síns. María söng einnig lítillega með hljómsveitum eins og Nova tríóinu, Hljómsveit Karls Lilliendahl og Ó.B. kvartett en á þessum tíma voru söngvarar yfirleitt lausráðnir með hljómsveitum og stöldruðu iðulega stutt við.

María er af tónlistarfólki komin og er Þórir Baldursson tónlistarmaður bróðir hennar, um haustið 1967 byrjuðu þau systkini að starfa saman í hljómsveitinni Heiðursmönnum sem lék aðallega á höfuðborgarsvæðinu, fyrst í Leikhúskjallaranum og síðan í Klúbbnum. Mikið var að gerast í lífi Maríu á þessum árum, hún var þarna orðin unnusta Rúnars Júlíussonar í Hljómum, lauk sveinsprófi og síðan meistaraprófi í hárskeraiðn og var síðan kjörin fegurðardrottning Íslands vorið 1969 en þá hætti hún að syngja með Heiðursmönnum sökum anna, hún kom þó eitthvað fram með Þóri bróður sínum.

María sinnti næstu misserin mest skyldum sínum sem fegurðardrottning og var lítið viðloðandi tónlist næstu árin, árið 1972 hóf hún þó að syngja með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar í Súlnasal Hótel Sögu og starfaði með þeirri sveit í um tvö ár. Um þetta leyti rak hún orðið hársnyrtistofu, stóð í byggingaframkvæmdum með Rúnari unnusta sínum í Keflavík þar sem þau bjuggu, og starfaði einnig sem flugfreyja um tíma. Árið 1974 gaf hún sér þó tíma til að fara til Þýskalands þar sem Þórir bróðir hennar starfaði þá, og tók upp plötuna Vökudraumar sem kom síðan út árið 1975 á vegum Hljóma-útgáfunnar sem Rúnar og Gunnar Þórðarson ráku þá um tíma. Platan fékk þokkalega dóma í Þjóðviljanum og náðu tvö laga hennar ágætum vinsældum, það voru lögin Allir eru einhvers apaspil og Eldhúsverkin en síðarnefnda lagið heyrist reglulega ennþá leikið á útvarpsstöðvum landsins. Öll voru lögin erlend við íslenska texta Þorsteins Eggertssonar sem þarna var á hátindi frægðar sinnar sem textahöfundur. Athyglisvert er að María gaf út sólóplötu á undan Rúnari (sem gaf út sína fyrstu plötu 1976) og einnig má geta þess að fyrsta hljómsveit Maríu (Skuggar) starfaði töluvert fyrr en fyrsta sveit Rúnars (Hljómar).

María kjörin fegurðardrottning Íslands 1969

Þetta sama ár, 1975 komu út nokkur lög á öðrum plötum með Maríu, safnplötunum Eitthvað sætt og Tónlistarsprengingu og jólaplötunni Gleðileg jól, María kom einnig við sögu á fyrstu sólóplötu Gylfa Ægissonar sama ár sem og á annarri plötu hans sem kom út árið eftir en hún var fyrsta platan sem nýstofnað fyrirtæki Maríu og Rúnars Júl., Geimsteinn, sendi frá sér. Geimsteinn varð síðan öflugt útgáfufyrirtæki sem gefið hefur út hundruð platna, auk þess að reka hljóðver frá árinu 1982.

Þau María og Rúnar starfræktu einnig hljómsveit undir Geimsteins-nafninu frá árinu 1976 en sú sveit starfaði í um áratug og sendi frá sér fjórar breiðskífur, María söng með þeirri sveit og kom einnig við sögu á fjórum plötum sem Áhöfnin á Halastjörnunni sendi frá sér á árunum 1980-83 en þau Rúnar starfræktu þá sveit einnig.

Minna fór fyrir Maríu í íslensku tónlistarlífi eftir að Geimsteinn lagði upp laupana, hún söng eitthvað með Rokksveit Rúnars Júlíussonar en eftir 1990 má segja að hún hafi lagt hljómsveitasönginn að mestu á hilluna. Hún hefur þó sungið töluvert á tónleikum og í kirkjustarfi, tekið t.a.m. þátt í tónlistarsýningum eins og Laugardagkvöldi á Gili og Leitin að týndu kynslóðinni.

María hefur jafnframt komið við sögu á fjölda platna í gegnum tíðina og þá einkum tengdum útgáfufyrirtækinu Geimsteini, þar má nefna plötur með Rúnari, Ruth Reginalds, Magnúsi og Þorgeiri, Gylfa Ægissyni og hljómsveitinni Deep Jimi & the Zep Creams en síðast talda sveitin inniheldur Júlíus Guðmundsson son þeirra Maríu og Rúnars, hinn sonur þeirra – Baldur Guðmundsson hefur einnig mikið verið viðloðandi tónlist.

Árið 1992 kom út plata sem hafði að geyma lög með Maríu frá árunum 1974 til 86, m.a. af Vökudraumum en einnig af safnplötum, þessi plata bar titilinn Ef og innihélt tuttugu lög. Þá kom út önnur safnplata með henni árið 2007, sú kom út í tilefni af sextíu ára afmæli söngkonunnar og hét Að eiga sér draum. Fjölmörg lög Maríu hafa einnig komið út á safnplötum í gegnum tíðina og má þar nefna plötur eins og Svona var það 1975, 16 ára, Sveitaperlur, Stjörnuplata 3 og 4 og Bítlabærinn Keflavík.

María hefur að mestu dregið sig í hlé frá söngnum síðustu árin en hún varð ekkja árið 2008.

Efni á plötum