Afmælisbörn 28. febrúar 2021

María Baldursdóttir

Afmælisbörnin eru þrjú á þessum síðasta degi febrúar mánaðar:

Fyrsta skal nefna Maríu Baldursdóttur söngkonu, hárgreiðslumeistara og fyrrum fegurðardrottningu Íslands en hún er sjötíu og fjögurra ára gömul í dag. María (sem er ekkja Rúnars Júlíussonar) hóf söngferil sinn með í Keflavík með Skuggum en söng síðar með Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, Bluebirds, Heiðursmönnum, Geimsteini, Áhöfninni á Halastjörnunni og Rokksveit Rúnars Júl. María hefur gefið út tvær sólóplötur og safnplötu að auki.

Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson bassaleikari er fjörutíu og fjögurra ára á þessum degi, hann hefur leikið með fjöldanum öllum af þekktum hljómsveitum en þar má nefna Flís tríóið, Baggalút, Hjálma, Memfísmafíuna, Hummus og Senuþjófana svo einhverjar séu nefndar en einnig hefur Valdimar leikið með óteljandi djasskvartettum. Hann hefur ennfremur leikið á plötum óteljandi listamanna.

Elma (Ingibjorg) Gíslason (1910-87) tónlistarfrömuður meðal Vestur-Íslendinga í Winnipeg hefði einnig átt afmæli á þessum degi. Hún stjórnaði kórum Vestur-Íslendinga, samdi tónlist, söng einnig sjálf og var sólóisti Sambandskirkjunnar í Winnipeg. Elma lauk háskólaprófum í tónlistarfræðum, söng og söngmennt.

Vissir þú að systkinin Diddú, Páll Óskar og Jóhanna eru börn Hjálmtýs Hjálmtýssonar, sem einnig var kunnur söngvari?