Matthías Jochumsson (1835-1920)

Matthías Jochumsson

Flestir þekkja einhver ljóða Matthíasar Jochumssonar en við mörg þeirra hafa verið samið lög.

Matthías Jochumsson (f. 1835) fæddist að Skógum í Þorskafirði, hann var af fátæku fólki kominn en hafði áhuga á að mennta sig og nam við Lærða skólann þótt seint yrði, lauk síðar prestsnámi og starfaði sem prestur um tíma en fékkst við fjölmörg önnur störf. Hann bjó víða um land og erlendis einnig en lengstum á Akureyri þar sem hann lét reisa húsið Sigurhæðir sem hann var síðan kenndur við. Ævisaga hans, skráð af Þórunni Erlu Valdimarsdóttur ber einmitt titilinn Upp á Sigurhæðir en hún kom út 2006. Matthías lést árið 1920.

Matthías orti mörg þekkt ljóð sem lög hafa verið samin við og er Lofsöngur (Ó, Guð vors lands) þeirra þekktast en Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi þjóðsöng Íslendinga við það á sínum tíma, upphaflegur titill ljóðsins var Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára – íslenska ríkið keypti öll réttindi að þjóðsöngnum árið 1949. Fleiri sönglög við ljóð Matthíasar eru þekkt og má nefna t.d. Fögur er foldin og Minni kvenna (Fósturlandsins freyja), auk sálmanna Ó faðir, gjör mig lítið ljós og Hærra, minn guð til þín en síðast talda ljóðið er þýðing. Matthías samdi einnig leikritið Skugga-Svein.