Afmælisbörn 21. september 2019

Í dag eru fjögur afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari er fimmtíu og fjögurra ára gömul í dag. Áshildur hefur komið víða við í tónlist sinni, verið í aukahlutverkum á plötum annarra listamanna en einnig gefið sjálf út nokkrar sólóplötur, m.a. í samstarfi við annað afmælisbarn dagsins, Atla Heimi, og einnig Selmu Guðmundsdóttur, svo fáein dæmi séu tekin.

Annað afmælisbarnið í dag er Rúnar Þór Pétursson en hann er sextíu og sex ára gamall. Rúnar Þór á að baki langan sólóferil sem spannar vel á annan tug sólóplatna en hann hefur líka starfað með mörgum hljómsveitum síðan hljómsveitaferill hans hófst á Ísafirði með Blackbird en í kjölfarið hafa komið sveitir eins og Jana, Xplendid, Fjötrar, 3. Hæðin, GRM og nú síðast Klettar.

Þriðja í röð afmælisbarna dagsins er söngkonan Linda Gísladóttir sem margir muna eftir úr Lummunum, hún er sextíu og þriggja ára gömul. Linda söng með hljómsveitum eins og Cirkus, Jazztríó Guðmundar Ingólfssonar, Haukum, Vindlum Faraós og Bláa fiðringnum. Hún hafði fyrst sungið inn á plötur með Gylfa Ægissyni og Róberti bangsa og kom síðar við sögu á nokkrum slíkum, en Linda gaf sjálf út sólóplötu árið 1978, sem bar nafn hennar.

Og að lokum er hér nefndur Atli Heimir Sveinsson tónskáld sem hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést fyrr á þessu ári. Atli Heimir nam píanóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og stundaði síðan tónfræði- og tónsmíðanám í Þýskalandi á árunum í kringum 1960. Hann kom heim að loknu námi og kenndi m.a. við Tónlistarskólann í Reykjavík og starfaði við Ríkisútvarpið. Meðal verka sem hann samdi eru óperan Silkitromman, kórsvítan Haustmyndir, tónverkið Tíminn og vatnið og svo fjöldinn allur af sönglögum sem margir þekkja. Atli Heimir sinnti einnig ýmsum félagsstörfum í þágu tónlistarinnar.