Linda Gísladóttir (1956-)

Linda Gísladóttir

Linda Gísladóttir

Linda Gísladóttir var ein af hinum svokölluðu Lummum Gunnars Þórðarsonar, og varð ein af þekktari söngkonum þjóðarinnar á tímabili, lítið hefur farið fyrir henni hin síðari ár.

Linda (Samsonar) Gísladóttir (f. 1956) hóf að syngja fyrst opinberlega á menntaskólaárum sínum í MH sem þá strax var farinn að unga út tónlistarfólki þarna fyrir miðjan áttunda áratuginn.

Linda söng um svipað leyti eigið lag í sjónvarpsþætti við undirleik Gunnars Þórðarsonar og fleiri, og varð það kveikjan að því að hann fékk hana í söngsveitina Lummurnar fáum árum síðar. Í millitíðinni söng Linda inn á plötur, fyrst á fyrstu plötu Gylfa Ægissonar (1975) og á barnaplötu um Róbert bangsa (sama ár) og ári síðar söng hún bakraddir á plötu Harðar Torfasonar, Dægradvöl, en slíkar raddanir áttu svolítið eftir að verða hlutskipti hennar. Um tíma söng hún reyndar aðeins með hljómsveitinni Haukum og svo sumarið 1978 með Cirkus.

Hún fékk þó sitt alvöru tækifæri þegar Gunnar Þórðar smalaði saman í Lummurnar 1977 og hrærði í tvær plötur, þar mátti heyra gamlar lummur útsettar í poppgír enda fékk tiltækið misjafnar undirtektir. Almenningur keypti plöturnar og fyllti bauk Gunnars en að öðru leyti fékk Gunnar á baukinn hjá gagnrýnendum.

Í kjölfarið sá Steinar Berg gróðravon í Lindu og þegar hann fékk tilboð um ódýran session flutning frá Danmörku sló hann til og söng Linda inn á tíu laga plötu, erlend lög við texta Þorsteins Eggertssonar. Skemmst er frá því að segja að platan floppaði þrátt fyrir að hún hafi í raun fengið ágæta dóma, þokkalega í Morgunblaðinu og Vísi, heldur slakari í Tímanum en neikvæðastur var gagnrýnandi Dagblaðinu. Flestir fundu þeir þó hljóðfæraleiknum og textum Þorsteins allt til foráttu. Platan seldist því fremur lítið og í ofanálag fékk Linda aldrei greiðslur frá útgefandanum, þessi plata var henni því lítt til framdráttar og segja má að hún hafi að mestu hætt að syngja í framhaldi af því, að minnsta kosti fór lítið fyrir henni um árabil.

Linda fór í þroskaþjálfanám og sinnti því fagi eftir að námi lauk, en síðan spurðist til hennar um og eftir 1990 þegar hún hóf að syngja djass og bræðing með Vindlum Faraós og Bláa fiðringnum, sem reyndar var í grunninum sama sveit. Linda varð nokkuð þekkt söngkona innan djassgeirans um þetta leyti og kom m.a. fram með djasstríói Guðmundar Ingólfssonar. Þessi hluti söngferils hennar stóð þó ekki lengi og hún hætti alveg að koma fram, fluttist austur í Hveragerði og hefur alið þar manninn síðan.

Efni á plötum