Bambinos (1996-2007)

Bambinos

Hljómsveitin Bambinos starfaði í um áratug í kringum síðustu aldamót en sveitin lék einkum á minni samkomum s.s. árshátíðum og afmælum. Uppistaðan í sveitinni upphaflega voru læknar á Landspítalanum.

Bambinos var stofnuð haustið 1996 í því skyni að leika í fimmtugs afmæli og voru upphafsmeðlimir læknarnir og söngvararnir Þórólfur Guðnason gítarleikari og Viðar Eðvarðsson tenórsaxófónleikari, og Ársæll Másson gítarleikari, söngkonan Kristín Leifsdóttir bættist síðan í hópinn.

Sveitin lék einnig á árshátíð Læknafélags Reykjavíkur fljótlega en mannabreytingar urðu síðan nokkrar í henni, Hafsteinn Guðfinnsson bassaleikari bættist í hópinn árið 2000 og var lengst viðloðandi sveitina en einnig komu við sögu hennar Leifur Geir Hafsteinsson bassaleikari, Gísli Helgason flautu- og slagverksleikari og trommuleikararnir Árni Áskelsson og Oddur Finnbogi Sigurbjörnsson. Lagaval Bambinos var fjölbreytilegt, djassstandardar, Eyjalög, lög Gísla Helgasonar og poppslagarar frá ýmsum tímum.

Bambinos starfaði til ársins 2007.