MK kvartettinn (1981-)

MK kvartettinn

MK kvartettinn var afsprengi líflegs tónlistarlífs í Menntaskólanum í Kópavogi en hann starfaði um nokkurra ára skeið á níunda áratug síðustu aldar, kvartettinn var síðan endurvakinn á tíunda áratugnum og aftur á nýrri öld svo varla er hægt að segja að han hafi hætti starfsemi.

MK kvartettinn var stofnaður árið 1981 (önnur heimild segir 1982) innan Kórs MK og var líklega kvintett í upphafi, síðar sextett en endaði sem kvartett. Kvartettinn hafði sönghópa eins og Andrews systur og Manhattan transfer sem fyrirmyndir og stúderaði raddsetningar þeirra, flutti lög þeirra og annarra og raddsettu þá jafnvel sjálf ásamt undirleikara þeirra Ara Einarssonar gítarleikara, stundum sungu þau frumsamda íslenska texta við lögin.

MK kvartettinn skipuðu Skarphéðinn Hjartarson, Þór Heiðar Ásgeirsson, Guðrún Gunnarsdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir og Þuríður Jónsdóttir, þær stöllur Guðrún og Hrafnhildur skiptu með sér alt-röddinni þar sem þær áttu stundum ekki heimangengt en Þuríður söng hins vegar sópraninn. Þó kom einnig fyrir að kvartettinn var skipaður þeim öllum fimm. Þegar hópurinn var sextett í upphafi voru þau Brynjar Gunnarsson og Anna Hafberg fimmti og sjötti meðlimurinn.

MK kvartettinn á sviði

Kvartettinn söng á ýmsum skemmtunum í Kópavogi og höfuðborgarsvæðinu, á skólaskemmtunum, árshátíðum, fullveldishátíðum og kosningavökum svo dæmi séu nefnd en þau sungu einnig bæði í útvarpi og sjónvarpi (í þættinum Á líðandi stundu) á sínum tíma. Þá komu þau í nokkur skipti fram á Vísnakvöldum Vísnavina og komu reyndar við sögu á plötu þeirra, Að vísu… sem kom út árið 1986, sem og á plötu Hálfs í hvoru en þar voru þau í bakraddahlutverki. Ólafur Þórðarson Ríó-maður og síðar umboðsmaður sá um að bóka hópinn víðs vegar í upphafi og kom þeim í raun þannig á framfæri.

Eins og glöggir lesendur hafa áttað sig á hélt kvartettinn söngstarfi sínu áfram löngu eftir að þau höfðu sett upp stúdentshúfurnar en kvartettinn starfaði til sumarsins 1988 en hætti þá þar sem tveir meðlimir hans voru þá á leið erlendis í nám, tvennir lokatónleikar voru haldnir af því tilefni en meðlimir sáu þó ástæðu til að nefna í blaðaviðtali að þeir vonuðust til að þau kæmu saman aftur.

Það var svo haustið 1993 sem MK kvartettinn birtist aftur en þá komu þau fram á jólakvöld Vísnavina og svo aftur vorið 1994. Ekki liggur fyrir hvort fleiri slíkar endurkomur voru með kvartettnum næstu árin en það hlýtur þó að teljast líklegt. Hins vegar birtust þau árið 2013 þegar Guðrún Gunnarsdóttir hélt upp á þrjátíu ára söngafmæli með tónleikahaldi og í kjölfarið héldu þau nokkra tónleika árið eftir við miklar vinsældir. Þannig má segja að MK kvartettinn hafi aldrei hætt störfum og er aldrei að vita nema hann birtist aftur.