Mosi frændi (1985-88 / 2009-)

Mosi frændi

Hljómsveitin Mosi frændi átti einhvern eftirminnilegasta sumarsmell sem komið hefur út á Íslandi, lagið sem varð feikivinsælt mun þó ekki hafa öðlast vinsældir sínar fyrir gæði hljómsveitarinnar eða spilamennskunnar heldur miklu fremur fyrir hið gagnstæða en sveitin sem mætti skilgreina sem pönksveit, þótti óvenju illa spilandi.

Mosi frændi hafði verið stofnuð haustið 1985 innan veggja Menntaskólans við Hamrahlíð. Til stóð að sveitin myndi um það leyti leika á tónleikum innan skólans en af því varð ekki og kom hún fram opinberlega í fyrsta sinn vorið eftir, 1986 – á tónleikum í Norðurkjallara MH. Sveitin þótti að því leytinu pönkuð að meðlimir hennar þóttu ekki sérlega góðir á hljóðfæri sín en bættu það upp með húmor og spilagleði, þar sem þeir í byrjun lögðu áherslu á ábreiður hinna ýmsu íslensku hljómsveita.

Sveitin vakti í byrjun ekki mikla athygli en spilaði á fáeinum tónleikum víða um borgina og ávann sér þannig athyglina, það var svo sumarið 1987 sem þeir félagar gáfu út kassettuna Susy Creamcheese for president: Sandý Saurhól í hundrað eintökum, fyrri hlið hennar hafði að geyma frumsamið efni en ábreiður fylltu þá síðari (mestmegnis erlendar). Kassettan var tileinkuð minningu Andy Warhol og ku vera sjaldgæf afurð í dag en hún var gefin út af útgáfufyrirtæki sveitarinnar Vandamannaplötum sem gaf  síðan út allt sem sveitin kom að, upptökur fóru fram í Norðurkjallara MH.

Fyrst um sinn hafði liðsskipan Mosa frænda verið nokkuð á reiki og sögðust þeir í blaðaviðtali hafa komið fram opinberlega allt frá því að vera tveir eða þrír og upp í sjö manns. Á Sandý Saurhól kassettunni voru meðlimir sveitarinnar Magnús J. Guðmundsson gítarleikari, Sigurður H. Pálsson söngvari, Gunnar Ólafur Hansson hljómborðsleikari, Aðalbjörn Þórólfsson bassaleikari, Kristinn Pétursson [trommuleikari?], Björn Gunnlaugsson gítarleikari og Hreinn Geirsson [?]. Sú skipan átti eitthvað eftir að breytast, sveitin hafði átt í vandræðum með trommuleikara og einhvern tímann var trommuleikari Geiri að nafni, í henni. Um haustið 1987 hafði fækkað í sveitinni um einn en þá átti hún tvö lög á safnsnældunni Snarl II: veröldin er veimiltíta, annað laganna á þeirri útgáfu var Poppstjarnan sem Utangarðsmenn höfðu sent frá sér en hitt var frumsamið.

Mosi frændi á sviði

Árið 1988 varð aðal ár Mosa frænda, sveitin spilaði grimmt fyrstu mánuðina og um vorið var hún skráð til leiks í Músíktilraunum Tónabæjar og Bylgjunnar, þá reyndar undir nafninu Katla kalda. Meðlimir hennar voru þá Björn, Aðalbjörn, Gunnar, Sigurður og Magnús en þeir höfðu þá fengið til liðs við sig trommuleikarann Ármann Halldórsson. Sveitin komst í úrslit tilraunanna en skipaði sér þar ekki meðal efstu sæta en sigurvegarar það árið var hljómsveitin Jójó frá Skagaströnd.

Um svipað leyti hafði sveitin sent frá sér split-kassettuna M&M [á lífi] ásamt hljómsveitinni Múzzólíní, en hún hafði að geyma tónleikaupptökur með sveitunum tveimur. Upplag kassettunnar mun hafa verið fimmtíu eintök, sem seldust treglega að sögn.

Sveitin gekk eitthvað áfram undir nafninu Katla kalda en varð síðan aftur að Mosa frænda, fáeinum vikum eftir Músíktilraunir varð sveitin hins vegar þjóðþekkt fyrir stórsmellinn Kötlu köldu. Forsaga málsins var með þeim hætti að þegar Björn gítarleikari var á leið heim til sín með strætó í byrjun maí heyrði hann Þorstein J. Vilhjálmsson þáverandi útvarpsmann á Bylgjunni vinna dægurlagatexta ásamt hlustendum sínum í beinni útsetningu þar sem hver og einn hlustandi lagði á vogarskálarnar. Björn kom sér í samband við Þorstein eftir þáttinn og samdi lag við textann en Þorsteinn hafði milligöngu um að sveitin færi í hljóðver og tæki upp lagið, sem var hljóðritað á mettíma og naut þegar vinsælda flestum á óvart því lagið þótti frámunalega illa flutt, og sjálfsagt var það einmitt hluti af ástæðunni fyrir vinsældum lagsins sem og að Bylgjan kynnti að sjálfsögðu undir þær.

Þannig komst lagið hátt bæði á vinsældalista Bylgjunnar og Rásar 2 þegar það kom út á smáskífu stuttu síðar ásamt laginu Ástin sigrar sem einnig komst á vinsældalistana. Á plötumiðanum sagði að flytjendur Kötlu köldu væru Mosi frændi ásamt Grandmaster Mel, sem var þá að sjálfsögðu Þorsteinn J. Vilhjálmsson, þar segir einnig að Áki Ákason komi við sögu í Ástin sigrar en ekki liggja fyrir nánari deili á honum. Smáskífan kom út í fimm hundruð eintökum og þess má geta að í lok annarrar plötuhliðarinnar heyrist þekkt Bylgjustef.

Meðlimir Mosa frænda höfðu ætlað sér að hamra járnið meðan það var heitt og töluðu um í viðtali að plata væri væntanleg með sveitinni um haustið, af því varð þó aldrei og hún auglýsti lokatónleika um haustið í MH, þar með hvarf sveitin fremur óvænt og snögglega.

Mosi frændi 2009

Mosi frændi gleymdist fljótlega enda höfðu meðlimir hennar farið í sína hverja áttina, flestir þeirra menntuðu sig og reyndar státuðu þeir sig síðar af því að vera menntaðasta hljómsveit landsins, þannig voru innan hennar kerfisfræðingur, háskólaprófessor, háskólakennari o.s.frv.

Þeir félagar komu eitthvað saman næstu áratugina, lék m.a. í brúðkaupum og þess konar samkomum  en það var svo árið 2009 sem sveitin var endurvakin opinberlega, lék þá á tónleikum á Grand rokk, á Rás 2 og víðar. Gunnar var þá fjarverandi en hann starfaði í Kanada. Tónleikarnir á Grand rokk voru hljóðritaðir og voru síðan gefnir út undir titlinum Grámosinn gólar: Endurkoma Mosa frænda 13. ágúst 2009. Platan hlaut þokkalega dóma í Fréttablaðinu.

Sveitin starfaði langt frá því samfleytt eftir þessa endurkomu en birtist við og við, þannig kom Mosi frændi fram á tónleikum árið 2012 sem báru yfirskriftina Rokk í Reykjavík og voru til heiðurs samnefndri kvikmynd sem þá hafði verið frumsýnd þrjátíu árum fyrr, þar átti sveitin nokkur lög. Þannig lék sveitin 2013, 2016 og 2017 en þá sendi hún frá sér plötuna Óbreytt ástand, sem gefin var út á glærum vinyl, á geislaplötu og á Internetinu. Óbreytt ástand innihélt mestmegnis frumsamið efni en einnig eru þar lögin Ó Reykjavík (Vonbrigði) og Creep (Q4U) sem Mosi frændi hafði flutt á Rokk í Reykjavík tónleikunum ásamt fleiri lögum. Platan virðist ekki hafa farið hátt og ekki er kunnugt um að plötudómar hafi birst um hana.

Mosi frændi var enn starfandi 2019 en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu hana þá.

Efni á plötum